„Mér líður vel í skrokknum, er í ágætis formi og það er afskaplega skemmtilegt þegar maður er að spila og líður vel,“ sagði markahrókurinn Atli Viðar Björnsson, en hann er leikmaður 15. umferðar að mati Morgunblaðsins. Atli Viðar var í fyrsta sinn í sumar í byrjunarliðinu tvo leiki í röð og svaraði því með því að skora tvö mörk í 3:2-sigri FH á ÍA.
Dalvíkingurinn er nú búinn að skora 104 mörk í efstu deild og er þriðji markahæstur frá upphafi. Annar á markalistanum er Ingi Björn Albertsson sem skoraði 126 mörk og Tryggvi Guðmundsson er efstur með 131 mark, en Atli segist fjarri því vera að horfa til þess að ná þeim félögum.
„Nei, bara alls ekki neitt. Það er nokkuð langt upp í þá, það vakti athygli fyrr í sumar þegar ég náði hundraðasta markinu og það var mjög skemmtilegt. Hvað þau eru orðin mörg í viðbót núna skiptir mig engu máli og þótt það sé klisja eru þrjú stig í bakpokann það sem skiptir mestu máli,“ sagði Atli Viðar, sem þurfti að taka mikilvæga ákvörðun eftir síðasta tímabil.