Breiðablik vann ÍA 3:1 í Kópavogi í kvöld í 16. umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu. Blikar voru miku sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum en sá síðari var heldur jafnari.
Breiðablik komst þar með í annað sætið með 32 stig, fjórum stigum á eftir FH. KR er með 30 stig og á leik til góða. ÍA er með 17 stig og er áfram í 9. sæti deildarinnar.
Fyrsta mark leiksins gerði Jonathan Glenn í upphafi síðari hálfleiks en staðan hefði hæglega getað verið 5-6:0 í leikhléi en var þess í stað markalaus.
Mörkin létu á sér standa en Albert Hafsteinsson jafnaði með fínu marki á 84. mínútu og var það í raun verðskuldað því Blikar höfðu slakað full mikið á. Annað mark Blika kom skömmu síðar eða á 88. mínútu og aftur var Glenn á ferðinni og hann fullkomnaði þrennuna þegar tæp mínúta var komið fram yfir 90 mínúturnar, en þá voru Skagamenn allir komnir inn í teig, markvörðurinn líka. Hann fékk boltann og lék með hann fram allan völlinn og renndi honum autt markið.
Sanngjarn sigur en Skagamenn hljóta þó að vera svekktir því þeir stóðu sig vel í seinni hálfleik og hefðu alveg getað stolið stigi.
Fylgst var með gangi leiksins hér á mbl.is