Blikar halda dampi í toppbaráttunni

Arnþór Ari Atlason og Michael Præst í baráttunni á Samsungvellinum …
Arnþór Ari Atlason og Michael Præst í baráttunni á Samsungvellinum í kvöld. mbl.is/Golli

Breiðablik styrkti stöðu sína í öðru sæti Pepsi-deildar karla þegar liðið lagði Stjörnuna í stórleik kvöldsins í Garðabæ, 1:0. Blikar eru fjórum stigum á eftir FH sem situr í toppsætinu.

Blikar byrjuðu leikinn betur og pressuðu stíft án þess þó að skapa sér nein ákjósanleg marktækifæri. Þeir fengu sex hornspyrnur á rúmlega tuttugu mínútum í upphafi leiks, en Stjarnan var þó ekki í teljandi vandræðum að halda aftur af Kópavogsbúum.

Heimamenn unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn eftir pressuna í byrjun, en það var sama upp á teningnum hjá þeim, færin voru af skornum skammti. Leikurinn jafnaðist nokkuð þegar leið á, en á markamínútunni 43. kom fyrsta markið. Ellert Hreinsson skallaði þá boltann fyrir fætur Jonathans Glenn, sem hefur verið drjúgur síðan hann kom í Kópavoginn í síðasta mánuði, og hann náði að koma tá í boltann af markteig áður en Gunnar Nielsen æddi út úr markinu.

Strax í næstu sókn gerðist umdeilt atvik. Guðjón Baldvinsson var við það að sleppa í gegn en lenti í samstuði við varnarmann. Flestum sýndist Vilhjálmur Alvar dómari vera að teygja sig í rauða spjaldið, en eftir að hafa rætt við aðstoðardómara dæmdi hann brot á Guðjón, og varð allt vitlaust á varamannabekk Stjörnunnar í kjölfarið. Staðan 1:0 í hálfleik, gestunum í vil.

Stjörnumenn voru beittari í síðari hálfleik og leituðu að jöfnunarmarkinu. Blikar voru hins vegar þéttir til baka og hættulegir í skyndisóknum sínum og svo fór að þeir fengu hættulegri færi. Stjörnumenn gerðu tvöfalda skiptingu þegar um tuttugu mínútur voru eftir og freistuðu þess að setja mark sitt á leikinn.

Þeir fengu vissulega færi áður en yfir lauk til þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð, en Blikavörnin hélt vel aftur af heimamönnum allt til enda, lokatölur 1:0 fyrir Breiðabliki sem er með 35 stig í öðru sæti, fjórum stigum á eftir FH, en Stjarnan er í sjöunda sætinu með 21 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar er fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld. Þá var fylgst með gangi mála í öllum leikjum kvöldsins hér á mbl.is í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI.

Stjarnan 0:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert