„Við höfum verið nokkuð stöðugir upp á síðkastið og skorað mikið af mörkum þó að við höfum fengið slatta á okkur líka,“ sagði Skagamaðurinn Jón Vilhelm Ákason, en hann er leikmaður 17. umferðar Pepsi-deildar karla að mati Morgunblaðsins. Jón Vilhelm skoraði tvö marka ÍA í ótrúlegu 4:4-jafntefli gegn Fjölni, en eftir að hafa verið 3:2 yfir í hálfleik kræktu Skagamenn í stig með jöfnunarmarki í uppbótartíma.
„Það var vond tilfinning að lenda undir 4:3 svo að það var hrikalega sætt að jafna undir lokin. En það var líka mjög vont þegar þeir minnkuðu muninn rétt fyrir hálfleik, það sló okkur svolítið út af laginu. Við vorum búnir að spila það vel í fyrri hálfleik að það hefði verið sanngjarnt að fara með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn. En þetta var mjög skemmtilegur leikur, og þá fyrst og fremst fyrir áhorfendur held ég. Það hefur verið þannig í undanförnum leikjum, við höfum skorað mikið, sem er gaman fyrir áhorfendur,“ sagði Jón Vilhelm, en eftir mörkin tvö hefur hann skorað þrjú mörk í sumar.
„Ég er búinn að fá slatta af færum í sumar en mörkin hafa ekki verið að detta. Ég vona að mörkin verði fleiri núna í kjölfarið, ég er ekki búinn að skora nógu mikið. Það var fínt að bæta tveimur við þarna,“ sagði Jón Vilhelm. Hann er þokkalega sáttur við frammistöðu Skagamanna undanfarið eftir erfiða byrjun og liðið er á réttri leið að sínu helsta markmiði, að halda sér í deildinni.
Sjá allt viðtalið við Jón Vilhelm og lið 17. umferðarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.