Arnar Grétarsson, þjálfari Blika, sagði eftir leik sinna manna gegn Leikni að það sé orðið ansi langt í FH. Hann gat ekki leynt vonbrigðum sínum að tapa tveimur stigum.
„Það var bara eitt lið á vellinum í fyrri hálfleik og við stjórnum honum frá upphafi til enda. Fengum nokkur færi og Eyjólfur stóð sig vel og hélt þeim inn í leiknum. Svo var ég ósáttur við hvernig við hófum síðari hálfleikinn. Ekki nógu mikil ákefð í því sem við vorum að gera, hægar sendingar og fljótlega kom óþolinmæði í liðið og þá fara menn að taka rangar ákvarðanir.“
Leiknismenn lumuðu á nokkrum færum en nýttu ekki. „Þeir fengu ábyggilega besta færi leiksins fyrir utan vítið. En maður er drullusvekktur að klikka á vítinu því ég held að það hefði verið sanngjarnt ef við við hefðum landað þremur stigum en þetta var svolítið stöngin út.“
Uppleggið hjá Leikni var að stoppa Kristinn Jónsson. „Þeir fylgdu bakvörðunum vel eftir, sérstaklega Kidda. Það var greinilegt að þeir vildu stoppa hann en þeir eru skipulagðir, duglegir og voru að loka svæðum vel. Gerðu okkur þetta erfitt fyrir og við vorum ekki nógu klókir í seinni hálfleik að finna þau svæði sem við vorum að finna í fyrri hálfleik. Það gekk illa að komast bakvið þá.“
Vítið var hárréttur dómur sem Arnar þakkaði fyrir. „Úff, maður þakkaði fyrir það því Leiknir er búið að fá dæmt á sig margt sem á ekkert að standa. En auðvitað hefði ég tekið því að fá þrjú stig. Það hefði gert mótið ívið skemmtilegri. Það eru fjórir leikir eftir og sex stig í FH sem er helvíti mikið.“