Veikindi svæfingarlæknis reyndust lán í óláni

Bjarni Þór Viðarsson
Bjarni Þór Viðarsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Bjarni Þór Viðarsson og samherjar hans í FH eru á góðri leið með að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn sem FH vann síðast árið 2012. Þegar fjórar umferðir eru eftir er FH með sex stiga forskot á Breiðablik í toppsæti Pepsí-deildarinnar. Bilið jókst í 18. umferðinni þegar FH vann Víking 1:0 í Hafnarfirði. Á sama tíma gerðu keppinautarnir Breiðablik og KR jafntefli á heimavöllum sínum gegn Leikni og Val.

Bjarni fékk 2 M fyrir frammistöðu sína gegn Víkingum og er leikmaður umferðarinnar í Morgunblaðinu. Hann neitar því ekki að staða FH-liðsins sé orðin ansi góð. „Þetta lítur vel út eins og er, það er ekki hægt að segja annað. Við erum búnir að koma okkur í ansi þægilega stöðu með þessum sex sigurleikjum í röð. Næsti leikur gegn ÍBV verður þó erfiður þar sem þeir eru að berjast fyrir sæti sínu í deildinni en við gerum okkur grein fyrir því að þetta er í okkar höndum,“ sagði Bjarni en nú fer deildin í smá frí á meðan landsliðið spilar tvo leiki. Bjarni segir það ekki slæmt að fá frí þó FH-liðið sé á siglingu.

„Ég held að það sé mjög fínt fyrir okkur. Við getum þá bara farið betur yfir hluti sem má laga, æft þokkalega en um leið hvílt okkur vel. Ég held að við höfum bara allir gott af því.“

Eins og Bjarni nefnir hefur FH unnið sex leiki í röð í deildinni. Áður en að því kom tapaði liðið fyrir KR bæði í deild og bikar. Á þeim tímapunkti virtust fjögur lið vera líkleg til að berjast um titilinn en hin þrjú: KR, Breiðablik og Valur hafa ekki náð að halda í við FH síðasta mánuðinn. Spurður hverju hann þakki það að FH náði þessum kafla segir Bjarni að FH-ingar hafi meðal annars breytt viðhorfi sínu.

Nánar er rætt við Bjarna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar er lið umferðarinnar að finna. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert