Veit ekki hvort þetta er heilbrigt

„Þetta var virkilega svekkjandi. Við gerðum mistök eftir að hafa komist yfir og hefðum átt að halda þessu,“ sagði Telma Hjaltalín Þrastardóttir, framherji Breiðabliks, eftir að liðið gerði 1:1-jafntefli við Selfoss í Pepsideildinni í kvöld og ljóst varð að liðið þyrfti að bíða eftir Íslandsmeistaratitlinum enn um sinn.

Tvær umferðir eru eftir af mótinu og Blikum dugar að vinna annan þessara leikja. Liðið hefur leikið frábærlega í sumar og fyrir leikinn í kvöld hafði það ekki fengið á sig mark í deildinni síðan í maí!

„Ég veit ekki alveg hvort það sé heilbrigt að fá ekki á sig mark í svona margar mínútur. Þetta er nánast óþægilegt og einhvern tímann verður maður að fá á sig mark,“ sagði Telma.

Breiðablik fékk frábært færi til að tryggja sér endanlega titilinn rétt fyrir leikslok, þegar Telma og Aldís Kara Lúðvíksdóttir sluppu einar gegn markverði Selfoss, Chante Sandiford, en Sandiford hirti boltann af tám Aldísar:

„Það hefði verið fínt að fá boltann og klára þetta bara en hún tók þessa ákvörðun og því miður virkaði það ekki í dag. Svona er þetta og við klárum þetta bara næst,“ sagði Telma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka