Yuri Krasnozhan, landsliðsþjálfari Kasakstan í knattspyrnu, staðfesti á blaðamannafundi í dag að miðjumaðurinn Alexander Merkel, leikmaður Udinese á Ítalíu, væri löglegur að spila með liðinu gegn Íslandi á morgun.
Sjá: Vonast eftir leyfi fyrir Íslandsleikinn
Merkel lék fyrir yngri landslið Þýskalands en hann er fæddur í Kasakstan og fluttist til Þýskalands 6 ára gamall. Hann lék kornungur með aðalliði AC Milan, eftir að hafa gengið til liðs við félagið 16 ára gamall, og á einnig að baki leiki með Genoa, Watford í ensku B-deildinni og hann var í láni hjá Grasshoppers í Sviss síðasta vetur.
Kasakar freistuðu þess að fá Merkel löglegan fyrir fyrri leikinn gegn Íslendingum sem fram fór í Astana í mars en það tókst ekki. Merkel var þá kominn til móts við hópinn en fékk ekki keppnisleyfið. Hann hefur verið á æfingum með liðinu án þess að mega spila, en landsliðsþjálfarinn staðfesti að allt væri nú klappað og klárt.
„Hann er í 24 manna hópnum sem kom til Íslands og allir pappírar eru tilbúnir. Hann er löglegur að spila leikinn,“ sagði Krasnozhan á blaðamannafundi í dag.