Ísland á EM í fyrsta sinn

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er öruggt um sæti í lokakeppni stórmóts í fyrsta sinn í sögunni, eftir markalaust jafntefli við Kasakstan á Laugardalsvelli í kvöld.

Ísland mun því leika í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Frakklandi 10. júní til 10. júlí á næsta ári. Liðið er efst í A-riðli með 19 stig og öruggt um að fara með Tékkum áfram upp úr riðlinum, en Tékkar eru einnig með 19 stig. Tyrkland er með 12 stig og Holland 10.

Ísland verður minnsta þjóð sem átt hefur fulltrúa á EM en metið var í eigu Lettlands. Þessi tveggja milljóna þjóð lék á EM 2004.

Dregið verður í riðla fyrir lokakeppni EM þann 12. desember í París. Leikið verður í sex fjögurra liða riðlum og útlit er fyrir að Ísland verði í 4. eða 3. styrkleikaflokki þegar dregið verður. Leikirnir í mótinu fara fram í tíu borgum.

Eftir stórkostlega frammistöðu í undankeppninni til þessa var leikurinn í kvöld ekki sá besti hjá Íslandi, en hann dugði til að tryggja farseðilinn á EM og það er það sem skiptir máli. Það virtist vera einhver smáskjálfti í íslensku leikmönnunum á upphafsmínútum leiksins en eftir því sem leið á fyrri hálfleik tók Ísland völdin á vellinum. Liðið skapaði sér nokkur færi en Kasakar vörðust af miklum móð og köstuðu sér fyrir hvert skotið á fætur öðru.

Snemma í seinni hálfleik fékk Jón Daði Böðvarsson algjört dauðafæri eftir að sending Jóhanns Berg Guðmundssonar fór af varnarmanni til hans í teignum. Stas Pokatilov, markvörður Kasaka, kom sínum mönnum til bjargar með góðri markvörslu.

Liðin sköpuðu sér annars fá færi og leikurinn fjaraði smám saman út. Rétt fyrir leikslok fékk fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson þó að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt, og hann verður því í leikbanni gen Lettlandi í næsta leik sem fram fer á Laugardalsvelli 10. október. Þremur dögum síðar mætir Ísland Tyrklandi í lokaumferðinni.

Textalýsingu mbl.is má sjá hér að neðan. Viðbrögð leikmanna og þjálfara koma inn á vefinn innan skamms.

Ísland 0:0 Kasakstan opna loka
90. mín. Ein mínúta af uppbótartíma. Takk fyrir það!
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert