„Lars er kóngurinn á Íslandi“

Ragnar Sigurðsson og Gylfi Þór Sigurðsson fagna sigrinum gegn Tékkum …
Ragnar Sigurðsson og Gylfi Þór Sigurðsson fagna sigrinum gegn Tékkum í sumar. mbl.is/Golli

Varnarmaðurinn sterki, Ragnar Sigurðsson, segir að það sé ótrúlegt hvernig Lars Lag­er­bäck, hafi breytt landsliðinu á undanförnum árum. Hann segir þetta í viðtali við Göteborgs-posten. Ísland er á barmi þess að ná ótrúlegum árangri; tryggja sér sæti á Evrópumótinu í Frakklandi. 

Ragnar tekur fram að ekkert sé öruggt, þó eitt stig gegn Kasakstan í kvöld dugi til að tryggja Íslandi sæti á Evrópumótinu sem fram fer í Frakklandi næsta sumar. „Við þurfum stig til að tryggja þetta. Ef þetta tekst þá hlýtur það að vera eitt stærsta afrek í sögu fótboltans,“ segir Ragnar.

Hann hrósar Lag­er­bäck en segist ekki vera viss um hvort hann sé einn þjálfari. „Ég veit ekki hvort hann er yfirþjálfari eða hvort hann og Heimir skipta þessu á milli sín, 50/50. En Lars er kóngurinn á Íslandi. Hann breytti öllum hjá okkur til betri vegar og allir sjá að maðurinn er sigurvegari.“

Landsliðsmenn eru ekki farnir að huga að fagnaðarlátum eftir leikinn í kvöld. „Við höfum ekkert hugsað út í það enda hugsum við bara um leikinn. Það hlýtur samt einhver að vera farinn að hugsa um þessi mál,“ segir Ragnar.

Ragnar kann vel við sig í Rússlandi en segist þó sakna þess að búa á Norðurlöndunum. Hann lék með IFK Gautaborg í Svíþjóð og FCK í Danmörku áður en hann flutti til Rússlands. „Ég sakna lífsins í Danmörku og Svíþjóð. Vonandi næ ég að spila með Gautaborg og FCK áður en ég legg skóna á hilluna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert