Meiri líkur á að vinna Eurolotto

Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. mbl.is/Eva Björk

„Það eru vonbrigði að fá á sig mark svona í lok leiks. Líka þegar við erum í þeirri stöðu að vera að keppa um eitthvað, að halda smáspennu í mótinu í síðustu umferðunum. En nú er það búið,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 2:2-jafnteflið við Víking í Pepsideildinni í kvöld.

FH vann ÍBV á sama tíma og segir Arnar að markmiðið hjá Blikum sé núna að halda 2. sætinu, en þeir eru átta stigum á eftir FH þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Það eru meiri líkur á að vinna Eurolotto en að við vinnum titilinn núna. Að vera átta stigum á eftir FH þegar þrír leikir eru eftir, það er bara of mikið. Á meðan það er fræðilegur möguleiki þá höldum við auðvitað áfram, en ég held að það sé nánast hægt að óska þeim til hamingju. Vonandi gerum við það samt ekki í næstu umferð, heldur í þeirri næstsíðustu eða síðustu. Við ætlum að taka þrjú stig gegn þeim í næstu umferð,“ sagði Arnar, en Breiðablik og FH mætast í Kópavogi næsta sunnudag.

Mistök tveggja manna reyndust kjaftshögg

Breiðabliki hefur gengið afar vel að halda marki sínu hreinu í sumar en Víkingar sköpuðu nokkrum sinnum mikla hættu við mark þeirra í kvöld, og skoruðu tvö mörk. Það fyrra kom eftir skelfileg mistök hjá Kristni Jónssyni og Damir Muminovic í upphafi seinni hálfleiks:

„Við fengum á okkur 1-2 færi í fyrri hálfleik, og eins í seinni hálfleik. Fyrra markið sem þeir skoruðu var bara gjöf frá okkur, og jöfnunarmarkið kom eftir vítaspyrnu í lokin. Ég sá ekki hvort boltinn fór í höndina á honum [leikmanni Breiðabliks]. Markið kom ekki eftir neitt færi, svo ég held að þeir hafi nú ekki fengið neinn aragrúa af færum. Við fengum okkar færi, við vorum betri í fyrri hálfleik og réðum gangi leiksins, en svo var seinni hálfleikur varla byrjaður þegar þeir jöfnuðu. Það er kjaftshögg, sérstaklega þegar það kemur með svona hætti, þar sem tveir menn gera mistök sem kosta markið. Það er oft erfitt að koma tilbaka eftir svona, og Víkingur er auðvitað gott lið. Það er gott að skora tvö mörk hérna, en of mikið að fá á sig tvö mörk,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert