Breiðablik hélt lífi í Íslandsmeistaravonum sínum með því að vinna FH á Kópavogsvelli í dag, 2:1, þrátt fyrir að hafa lent undir seint í leiknum, í 20. umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu.
Þegar tvær umferðir eru eftir þarf FH að ná í tvö stig úr leikjum sínum við Fjölni og Fylki til að vera öruggt um að landa titlinum. Breiðablik mætir ÍBV á heimavelli og Fjölni á útivelli í síðustu tveimur leikjum sínum.
Blikar tryggðu sér endanlega Evrópusæti með sigrinum en þeir geta ekki endað neðar en í 3. sæti.
Eftir heldur rólegan leik, þar sem bæði lið fengu þó sín færi, komst FH yfir á 72. mínútu með laglegu marki frá Atla Guðnasyni. Strax í kjölfarið blésu Blikar til stórsóknar og það skilaði árangri um leið. Atli Sigurjónsson var arkitektinn að tveimur mörkum með skömmu millibili. Fyrst sendi hann fyrirgjöf á Jonathan Glenn sem skoraði af stuttu færi, og svo á Damir Muminovic sem gerði slíkt hið sama.
FH lagði allt í sölurnar í lokin til að jafna metin, og tryggja sér sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil, en hafði ekki erindi sem erfiði. Atli Viðar Björnsson komst næst því en náði ekki að koma skoti á markið eftir að hafa farið framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni markverði.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is Viðtöl koma inn síðar í kvöld.