Allt önnur lífsviðhorf eftir dvölina í Árósum

Oliver Sigurjónsson á fullri ferð á eftir boltanum í kappleik …
Oliver Sigurjónsson á fullri ferð á eftir boltanum í kappleik með Breiðabliki í sumar. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Það var rosalega gaman eftir leik og menn mjög ánægðir með að markmiðið skuli hafa náðst – að Evrópusætið sé í höfn. Við strákarnir fórum aðeins saman og fögnuðum þessu, en við erum alveg með báða fætur á jörðinni og viljum ná í fleiri stig áður en mótið klárast,“ sagði Oliver Sigurjónsson, leikmaður 20. umferðar Pepsideildar karla í knattspyrnu.

Oliver átti frábæran leik í 2:1-sigrinum á FH sem kom í veg fyrir að FH landaði Íslandsmeistaratitlinum. FH þarf tvö stig úr síðustu tveimur umferðunum til að tryggja sér titilinn og Blikar gera sér litlar sem engar vonir um að raunin verði önnur:

„Það er eiginlega ekki séns, en ef við vinnum okkar leiki getum við verið stoltir af okkur sjálfum. Það vantar eitthvað örlítið upp á, en við erum rosalega nálægt FH. Það vantar aðeins meiri stöðugleika í að vinna liðin í neðri hlutanum,“ sagði Oliver.

Oliver er tvítugur miðjumaður, fyrirliði U21-landsliðs Íslands og Bliki í húð og hár. Hann var sigursæll með yngri flokkum félagsins en fór 16 ára til AGF í Árósum í Danmörku, eftir að hafa meðal annars verið boðið til reynslu hjá ítalska stórliðinu AC Milan. Oliver kom aftur heim frá AGF á miðju sumri í fyrra, eftir þriggja ára lærdómsríka dvöl:

„Þetta var mikil reynsla og ég þroskaðist mikið við þetta. Mamma fór með mér út og það var mjög mikill stuðningur í því, og svo kom pabbi einu og hálfu ári síðar. En þetta var erfitt, sérstaklega fyrsta hálfa árið, að venjast því að geta ekki verið með vinum sínum og svo framvegis. Ég sé þó alls ekki eftir þessum tíma. Eftir að ég kom heim metur maður lífið allt öðruvísi og sér hlutina öðrum augum. Þegar maður var yngri komst ekkert annað að en að fara í atvinnumennsku, en núna sér maður þetta öðruvísi og metur litlu hlutina miklu meira. Bara það að borða til dæmis með allri fjölskyldunni á kvöldin finnst mér alveg geðveikt í dag, á meðan maður var ekkert að meta það þegar maður var yngri,“ sagði Oliver.

Ýtarlegt viðtal er við Oliver  í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Þar einnig birt lið 20. umferðar í Pepsi-deild karla og tölfræðiuppgjör deildarinnar nú þegar tvær umferðir eru eftir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka