Breiðablik gerði sitt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu þegar ÍBV kom í heimsókn í Kópavoginn í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í dag. 1:0 sigur þeirra dugði þó ekki til þar sem FH vann sinn leik, og verður því annað sætið hlutskipti þeirra grænklæddu. Þrátt fyrir tapið eru Eyjamenn hins vegar öruggir með sæti sitt í deildinni að ári.
Leikmenn voru nokkuð lengi að venjast aðstæðum á Kópavogsvelli, þar sem stífur strekkingur þvert á völlinn setti sinn svip á leikinn. Þegar leið á fyrri hálfleikinn náðist betri taktur í leikinn, en vindurinn hafði sitt að segja hvað fjölda misheppnaðra sendinga varðar.
Liðin fengu hvort sitt dauðafærið í fyrri hálfleik. Kristinn Jónsson náði ekki krafti í skalla sinn af fjærstöng Eyjamarksins eftir góða sendingu Atla Sigurjónssonar, og Gunnar Heiðar Þorvaldsson slapp einn í gegn fyrir Eyjamenn en skot hans úr þröngu færi var varið. Staðan markalaus í hálfleik.
Hlutirnir voru hins vegar fljótir að breytast eftir hlé og á 51. mínútu komust heimamenn yfir. Elfar Freyr Helgason fann þá Kristin Jónsson úti á vinstri kanti, Kristinn sendi fyrir þar sem Atli Sigurjóns kom á ferðinni og skilaði boltanum í netið úr teignum. 1:0 fyrir Blika.
Eyjamenn hresstust nokkuð eftir markið en illa gekk að skapa sér færi og fóru þeir illa með þau færi sem þó sköpuðust. Taugatitringur fór að einkenna Blikana þegar fréttir bárust af því að jafnt væri í leiknum í Kaplakrika og þeir grænklæddu því ennþá í möguleika á titlinum.
Það gerðist lítið síðasta stundarfjórðunginn þar sem Eyjamenn réðu ferðinni án þess að skapa sér nokkuð á meðan Blikar virtust klára leikinn á hálfu gasi. Þeir gerðu hins vegar sitt og uppskáru 1:0 sigur, en missa engu að síður af Íslandsmeistaratitlinum eftir sigur FH.
Blikar enda því í öðru sæti deildarinnar sama hvað gerist í síðustu umferðinni. Staða Eyjamanna er einnig ljós þar sem tíunda sætið verður hlutskipti þeirra á meðan Leiknir fer niður með Keflavík.
Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en viðtöl birtast hér á vefnum síðar í dag.