„Ég er besti sóknarmaðurinn í deildinni“

Gary Martin hefði viljað spila meira í sumar.
Gary Martin hefði viljað spila meira í sumar. mbl.is/Eggert

Gary Martin, sóknarmaður KR, var ánægður með síðasta leik liðsins í sumar en KR sigraði Víking 5:2 í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í dag. Englendingurinn var hins vegar ekki ánægður með sumarið í heild sinni en hann þurfti að verma varamannabekkinn óvenju mikið í sumar.

Martin skoraði tvö mörk í dag en markakóngur síðustu tveggja tímabila skoraði þar með fimm deildarmörk í sumar. „Ég og Hólmbert lékum saman í fremstu víglínu og ég held að það ráði ekki margir við okkur saman. Ég er góður í ýmsu sem hann er ekki jafn góður í og öfugt. Það var gott að enda á sigri og ná að skora,“ sagði Martin við mbl.is að leik loknum.

„Ég hef bara byrjað átta leiki en er með fimm mörk og fjórar stoðsendingar í þeim leikjum. Ég hefði getað haft meiri áhrif í sumar ef ég hefði spilað meira og ég held að allir viti það. Ég er besti sóknarmaðurinn í deildinni þegar ég er með sjálfstraust og í góðu formi, að mínu mati. Ég sannaði það undanfarin tvö ár og aftur í dag.“

„Ég þarf að spila meira“

Aðspurður sagðist Martin ekki vita hvort þetta hafi verið síðasti leikur hans sem leikmaður KR. „Ég hef ekki hugmynd. Maður á aldrei að segja aldrei en ég er ósáttur með tímabilið. Ég þarf að spila meira og hefði byrjað fleiri leiki hjá öllum öðrum liðum í deildinni; FH, Breiðablik eða hvaða liði sem er.

Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um samband hans við Bjarna Guðjónsson, þjálfara KR, sem virðist stirt. Martin segir að hann gæti þó leikið áfram undir stjórn Bjarna. „Sambandið er ekki gott, við höfum mismunandi skoðanir og þannig er það. Ég veit ekki með framhaldið en það er ekki komið að þeim tímapunkti að ég muni ekki geta leikið fyrir KR og við þurfum því bara að sjá til. Ég vil sjá hvort lið erlendis frá hafi enn áhuga á mér en ég hafnaði tveimur félögum í félagaskiptaglugganum í sumar en liðin sem gerðu tilboð voru einfaldlega ekki nógu góð.“

Hann segir að næsta undirbúningstímabil sé gríðarlega mikilvægt því hann ætli sér stóra hluti sumarið 2016. „Ég vil vera að berjast um gullskóinn og titilinn á næsta tímabili. Ég mun byrja hjá einkaþjálfara á þriðjudaginn því þetta snýst ekki bara um að slaka á og njóta lífsins í fríinu. Ég þarf að sanna mig fyrir sjálfum mér á næsta ári, því ég held að allir viti ennþá hvað ég get, hvaða lið sem ég spila fyrir á næsta ári. Núna leik ég með KR en þeir gætu selt mig í næstu viku.

Martin bendir á að sama hvað gerist þá hafi hann alltaf átt frábært samband við stuðningsmenn KR. „Ég hef ekki sagt það áður en þegar ég kom inn á í bikarúrslitaleiknum þá upplifði ég bestu tilfinningu sem ég hef upplifað sem knattspyrnumaður. Innifalið í því er þegar ég lék fyrir framan fjölskyldu mína og vini gegn Celtic fyrir framan 44 þúsund manns. Þegar ég kom inn á bikarúrslitaleiknum sá ég hvað þeim er annt um mig og ég mun aldrei gleyma því,“ sagði Gary Martin.

Gary Martin fagnar marki með KR.
Gary Martin fagnar marki með KR. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert