Ánægð Sandiford áfram á Selfossi

Chante Sandiford ver vítaspyrnu í leik með Selfyssingum.
Chante Sandiford ver vítaspyrnu í leik með Selfyssingum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Bandaríski knattspyrnumarkvörðurinn Chanté Sandiford hefur skrifað undir nýjan samning við Selfyssinga um að leika áfram með kvennaliði þeirra á næsta keppnistímabili.

Sandiford kom til liðs við Selfoss fyrir nýliðið tímabil frá rússneska liðinu Zorkij þar sem hún varð rússneskur meistari og lék með liðinu í 32ja og 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, m.a. gegn Stjörnunni árið 2012.

Áður spilaði hún með bandarísku liðunum Washington Freedom og NJ Wildcats, og lék með háskólaliði University of California, þar sem hún komst tvisvar í fjögurra liða úrslit meistarakeppninnar. Þar á undan var Sandiford í landsliðshópum Bandaríkjanna í U15, U17 og U20 ára en náði þó ekki að spila landsleik.

„Mér fannst frábært að spila með Selfossi og hef aldrei verið eins ánægð hjá nokkru félagi. Það er langt í næsta mót en ég er viss um að við getum nýtt okkur meðbyrinn frá því í sumar og haldið áfram í baráttunni um efstu sæti deildarinnar," sagði Sandiford við mbl.is í dag.

Hún lék alla leiki Selfyssinga í ár og tók þátt í að tryggja liðinu sinn besta árangur frá upphafi en það endaði í 3. sæti Pepsi-deildarinnar og lék annað árið í röð í úrslitum bikarkeppninnar.

Útlit er fyrir að Dagný Brynjarsdóttir landsliðskona leiki ekki áfram með Selfyssingum þar sem hún fer væntanlega í atvinnumennsku í Bandaríkjunum. Sandiford sagði að vissulega yrði slæmt að missa svo góðan leikmann.

„Dagný var í lykilhlutverki í okkar liði en ef hún fer, þá fá aðrir leikmenn tækifæri til að fylla hennar skarð og taka á sig meiri ábyrgð. Það verður spennandi að sjá hver gerir það, og eftir reynslu mína á Selfossi veit ég að þeirri áskorun verður tekið af einbeitingu og vinnusemi," sagði Chanté Sandiford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert