Ísland varð að sætta sig við 1:0-tap gegn Tyrklandi í lokaumferð undankeppni EM karla í knattspyrnu, á Torku Arena í Konya í kvöld, og þar með 2. sæti A-riðils.
Tyrkir voru mun sterkari fyrsta hálftíma leiksins, dyggilega studdir af hreint út sagt stórkostlegum stuðningsmönnum sem troðfylltu leikvanginn. Þeir náðu þó ekki að nýta sér það til að skapa sérstaklega hættuleg færi. Ísland komst hins vegar nálægt því að skora þegar Birkir Bjarnason sendi stungusendingu yfir vörn Tyrkja á Jón Daða Böðvarsson en Selfyssingurinn missti boltann of langt frá sér, í hendur markvarðarins. Staðan var því markalaus eftir frekar rólegan fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var einnig afar rólegur lengi vel, og virtist sem bæði lið væru afar sátt við jafntefli. Meira að segja eftir að Gökhan Töre fékk rautt spjald á 77. mínútu, fyrir glórulausa tæklingu á Jóni Daða Böðvarssyni, sótti íslenska liðið lítið og Tyrkirnir enn minna.
Eina mark leiksins kom beint úr glæsilegri aukaspyrnu Selcuk Inan þegar örfáar mínútur lifðu leiks. Þá var tíminn of naumur fyrir íslenska liðið að svara fyrir sig.
Gríðarlegur fögnuður braust út í leikslok, og enn meiri þegar ljóst var að Kasakstan hefði unnið Lettland. Þau úrslit þýða að Tyrkir fara beint á EM, sem liðið með bestan árangur í 3. sæti í undankeppninni, þegar horft er til úrslita í leikjum fimm efstu liða hvers riðils. Íslendingar og Tékkar höfðu þegar tryggt sér farseðilinn, en Ísland endaði í 2. sæti og Tékkland efst með sigri á Hollandi í Amsterdam.