Svíinn Lars Lagerbäck hefur unnið sig inn í hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar síðan hann tók við karlalandsliðinu í knattspyrnu, í ársbyrjun 2012. Það er ekki bara ævintýralegur árangur liðsins sem gerir það að verkum. Afslappað, vingjarnlegt og hrokalaust fas þessa reynslumikla þjálfara, sem skilaði Svíum fimm sinnum í röð í lokakeppni stórmóts, á ríkan þátt í því sömuleiðis.
Í mínu starfi hef ég fengið að kynnast þessum persónueinkennum svolítið. Samskipti við Lagerbäck eru öll hin þægilegustu og hann beið hinn rólegasti á meðan ég gróf upp spurningalistann minn, þegar við settumst niður í Tyrklandi á dögunum. Bauð upp á léttan brandara, eins og hann á til.
Þó að Ísland hafi ekki fagnað sigri í síðustu leikjum undankeppni EM, þá varpar það varla skugga á árangur liðsins. Ísland var á meðal allra fyrstu þjóða til að tryggja sér sæti í lokakeppninni, þeirri fyrstu sem karlalandsliðið í knattspyrnu tekur þátt í, og verður fámennasta þjóðin sem tekið hefur þátt á EM. Á leiðinni á mótið vann liðið meðal annars tvo frækna sigra á Hollendingum, sigur á Tékkum og Tyrkjum. Þessum miklu fótboltaþjóðum tókst ekki að stöðva Lagerbäck, Heimi Hallgrímsson og strákana í landsliðinu, sem hafa nánast verið á stöðugri uppleið síðan Svíinn var ráðinn. Ísland var fljótt farið að spila vel undir hans stjórn, en virðist enn vera að taka framförum:
„Liðið hefur bætt sig á ótal vegu. Síðasta undankeppni var nokkuð góð en við vörðumst ekki nægilega vel, og fengum of mörg mörk á okkur. Svo komu fáeinir leikir þar sem við náðum okkur alls ekki á strik. Það sem við gerðum var að við hækkuðum lægsta „frammistöðustigið“ okkar. Við höfum verið afskaplega stöðugir í okkar leik, varist sérstaklega vel en líka þróað sóknarleikinn vel,“ sagði Lagerbäck.
„Við skoruðum 17 mörk og fengum á okkur 6 í þessari undankeppni. Þessar tölur tala sínu máli í svona sterkum riðli. Það hefur allt verið að þróast í rétta átt hjá okkur. Leikmennirnir hafa líka öðlast meiri reynslu af alþjóðlegum fótbolta, við Heimir höfum kynnst þeim betur og þeir okkur, og við höfum getað þróað betur ýmsa þætti í okkar leikskipulagi. Tíminn hefur unnið með okkur, og þetta hefur verið mjög auðvelt vegna þess hvernig hugarfar og skapgerð leikmennirnir hafa. Við höfum bætt okkur mikið og ég er yfir mig hrifinn af því sem leikmennirnir hafa sýnt,“ sagði Lagerbäck, og tekur undir að fáir hafi getað séð fyrir hvernig riðillinn sterki sem Ísland lék í, þróaðist:
Sjá nánar ítarlegt opnuviðtal við Lars Lagerbäck í íþróttablaði Morgunblaðsins þar sem hann fer yfir stöðu mála hjá landsliðinu, einstaka leikmenn, reynslu sína af stórmótum og horfurnar fyrir EM.