„Leikmenn hafa sprungið út á styttri tíma en sjö mánuðum“

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Eggert

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, lagði áherslu á að mikilvægt væri að nýta tímann sem best fram að EM næsta sumar á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í Laugardalnum. Lars Lagerbäck er upptekinn erlendis og situr ekki fundinn.

Ísland mætir Póllandi og Slóvakíu í tveimur vináttulandsleikjum í Varsjá og Zilina 13. og 17. nóvember og þeir Heimir og Lars gerðu tíu breytingar á hópnum fyrir leikina.

Þó nú væru 217 dagar í EM sem virðist langur tími þá verður hann fljótur að líða. „Við ætlum að reyna að halda áfram að bæta liðið og bæta okkur sjálfa,“ sagði Heimir, burtséð frá því hvort leikirnir séu í móti eða ekki. „Við viljum að leikmenn bæti sig hjá sínum félögum á þessum sjö mánuðum. Margt getur gerst á þessum tíma. Leikmenn hafa sprungið út á styttri tíma.“

Mikið verið rætt um síðari hálfleikinn gegn Lettum í herbúðum landsliðsins að sögn Heimis.  Agi og einbeiting hurfu og öll ásýnd liðsins sem verið hafði hvarf líka að mati Heimis. Lærdómurinn sé þó dýrmætari en stigin töpuðu. Ekki síst fyrir þjálfarana. Kannski voru þeir einnig komnir fram úr sér. Hefðu átt að „læsa“ leiknum frekar en að reyna að bæta við mörkum. Þeir reyndu að gera of mikið, benti Heimir á. 

Allt annað var að sjá til liðsins í Tyrklandi sagði Heimir. Þar var agaður og góður varnarleikur og Tyrkir fengu fá marktækifæri. „Einn af okkar betri leikjum,“ sagði Heimir.  Mikið var í húfi fyrir Tyrki, erfiður útileikur og erfiðar aðstæður. Vel spilaður leikur að hans mati.

Heimir sagði hann og Lagerbäck vera ósátta við einn hálfleik í allri keppninni.  „Það hlýtur að vera ansi gott. Við erum stoltir af keppninni,“ sagði Heimir. 

Pólverjar höfnuðu í öðru sæti í sínum riðli, D-riðlinum í undankeppninni. Fram kom hjá Heimi að um væri að ræða gott sóknarlið sem beitti góðum skyndisóknum. „Það verður virkilega gaman að kljást við þá. Það er uppselt á leikinn. Íslenska liðið er kannski orðið „fancy“ lið?“ sagði Heimir og ekki var laust við að glott tæki sig upp á andliti Eyjamannsins. 

Fram kom hjá Heimi að þjálfarateymið hafi fylgst með 40-50 leikmönnum. Hann segir þá hafa verið fastheldna á leikmannahópinn. Margar ástæður séu fyrir því. Liðið hafi staðið sig vel og einnig sé góður liðsandi í hópnum. „Liðsheildin skiptir meira máli en að skoða leikmann í mótsleikjunum. Það er engin ástæða til að breyta því sem vel gengur.“

Vinnuregla er að velja ekki úr U-21 árs liðinu þegar það á leik. Ekki nema viðkomandi leikmenn séu nálægt því að komast í byrjunarliðið hjá A-liðinu að sögn Heimis. Í þetta sinn völdu hann og Lars fjóra leikmenn úr 21-árs landsliðinu í hópinn, Oliver Sigurjónsson, Frederik Schram, Hjört Hermannsson og Elías Má Ómarsson.

Hann segir landsliðsþjálfarana vita hvað þeir eldri geta sem fá frí í verkefninu sem framundan er. Ekki þurfi að skoða þá. 

Guðmundur Hreiðarsson, markmannsþjálfari tjáði sig um markverðina.  Hann sagði Frederik hafa fengið mikið hrós. Þjálfararnir vilja sjá hann og Guðmundur sagði að hann væri einn af framtíðarmarkmönnum okkar. Ingvar Jónsson og Ögmundur Kristinsson hafa staðið sig vel að sögn Guðmundar. Níu markmenn hafa verið notaðir í mótaleikjunum hjá þessu þjálfarateymi. Guðmundur sagði þá þurfa að skoða sem flesta ef uppákomur verða. Guðmundur ræddi við Hannes Þór Halldórsson í gær og endurhæfingin gengur vel. Hannes gæti spilað á ný í febrúar, sagði Guðmundur. 

Varðandi varnarmennina þá kom fram hjá Heimi að þeir hafi viljað skoða Sverri Inga Ingason, og hann hafi verið á jaðrinum að komast í hópinn áður. Hörður Björgvin Magnússon sé framtíðarmaður. Ekki verður hægt að skoða Hörð og Hjört í janúar og því væri upplagt að taka þá með í þetta skiptið. Þeir séu klárlega framtíðarleikmenn. Haukur Heiðar Hauksson hefur bætt sig hjá AIK að sögn Heimis. 

Arnór Ingvi Traustason hefur bætt sig í Svíþjóð og verið á radarnum hjá landsliðsþjálfurunum að undanförnu. Oliver Sigurjónsson hefur verið mjög góður með U-21 árs landsliðinu að mati Heimis. Elías Már Ómarsson kemur inn fyrir Jóhann Berg Guðmundsson sem er meiddur en gæti mögulega spilað seinni leikinn, gegn Slóvakíu. Elías Már stóð sig mjög vel með landsliðinu gegn Kanada í Bandaríkjunum í janúar að sögn Heimis og hann sagði þjálfarana vera spennta fyrir honum. Rúnar Már Sigurjónsson er í hópnum á ný en hann hefur verið inn og út úr landsliðinu.

Eins og vanalega vilja landsliðsþjálfararnir kynnast nýjum mönnum og þeirra persónuleikum, að sögn Heimis. Það kæmi í ljós hversu mikið þeir spila. „Almennt séð er ekki sjálfgefið að menn sem hafa verið í hópnum séu í honum áfram,“ sagði Heimir Hallgrímsson ennfremur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert