Draumabyrjun dugði ekki til gegn Slóvakíu

Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands en það dugði ekki til.
Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands en það dugði ekki til. Ljósmynd/Foto Olimpik

Ísland tapaði fyrir Slóvakíu þegar þjóðirnar mættust í vináttulandsleik sem fram fór í Zilina í kvöld. Eftir að Ísland hafði verið yfir í hálfleik skoruðu Slóvakar tvö mörk á þriggja mínútna kafla í þeim síðari og innsigluðu svo 3:1 sigur sinn skömmu fyrir leikslok.

Sex breytingar voru á íslenska liðinu frá tapleiknum gegn Pólverjum á föstudagskvöld, en rétt eins og í þeim leik fékk Ísland óskabyrjun. Strax á áttundu mínútu skallaði Kolbeinn Sigþórsson boltann áfram á Alfreð Finnbogason í vítateignum, sem náði að snúa með varnarmann í bakinu og skila boltanum snyrtilega upp í hornið. Alfreð að skora í öðrum leiknum í röð og staðan 1:0 fyrir Ísland.

Skömmu fyrir markið hafði Ísland þurft að gera breytingu á sínu liði, þegar Rúnar Már Sigurjónsson meiddist á tá svo fossblæddi. Eftir stundarfjórðung var liðið neytt í sína aðra skiptingu þegar Arnór Ingvi Traustason fékk spark og gat ekki haldið áfram leik.

Hættulegasta færi Slóvaka í fyrri hálfleik kom nánast strax eftir markið hans Alfreðs, þegar Robert Mak átti skot úr vítateignum sem hafnaði í stönginni. Hann var líflegur og átti tvö skot sem fóru framhjá markinu í fyrri hálfleik, en jafnræðið var nokkuð með liðunum út hálfleikinn. Staðan 1:0 fyrir Ísland þegar flautað var til hálfleiks.

Íslenska liðið sýndi fína takta í upphafi síðari hálfleiks og Alfreð kom boltanum meðal annars í netið eftir góðan undirbúning hjá Jóhanni Berg Guðmundssyni og Hauki Heiðar Haukssyni, en var flaggaður rangstæður. Í kjölfarið komu svo skelfilegar mínútur hjá íslenska liðinu.

Á 58. mínútu jöfnuðu Slóvaka svo metin eftir mikinn klaufagang í vörn Íslands. Sverrir Ingi Ingason ætlaði þá að skýla boltanum fyrir sóknarmanni Slóvaka og Ögmundur Kristinsson kom út úr markinu. Slóvakinn náði hins vegar að koma fæti í boltann á undan Ögmundi, koma honum á Robert Mek sem skilaði boltanum nánast í autt markið.

Aðeins þremur mínútum síðar lét Mak vaða rétt fyrir utan teig þegar ekkert virtist vera í gangi. Boltinn fór af Sverri Inga og þaðan í boga yfir Ögmund í markinu og hafnaði að lokum í netinu. Slóvakar allt í einu komnir í 2:1 eftir tvö mörk á þremur mínútum.

Nokkur taugatitringur greip um sig í íslenska liðinu eftir þessar skelfilegu mínútur þar á undan, en liðið náði að lokum taki í sinn leik á ný þó færin hafi látið á sér standa. Slóvakar voru hins vegar beinskeyttir í sínum sóknum og sex mínútum fyrir leikslok bar ein þeirra árangur.

Sverrir Ingi náði þá ekki að hreinsa boltann lengra en fyrir fætur Michal Duris, sem skilaði boltanum í hornið með skoti við vítateigslínuna. Úrslitin þarna ráðin og fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks. Lokatölur 3:1 fyrir Slóvaka og tapaði Ísland því báðum vináttuleikjum sínum í þessari törn.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Slóvakía 3:1 Ísland opna loka
90. mín. Alfreð Finnbogason (Ísland) fer af velli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert