„Finnur er fæddur leiðtogi“

Bjarni Guðjónsson, Aron Bjarki Jósepsson, Almarr Ormarsson
Bjarni Guðjónsson, Aron Bjarki Jósepsson, Almarr Ormarsson Eggert Jóhannesson

KR-ingar styrktu leikmannahóp sinn í dag þegar Finnur Orri Margeirsson gekk til liðs við félagið.

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, er ánægður með tilkomu Finns Orra í KR og leikmannahópinn í heild sinni, en mbl.is ræddi við hann á blaðamannafundi sem haldinn var í KR-heimilinu í dag. 

„Það er mjög jákvætt fyrir okkur að fá Finn Orra til liðs við okkur og við erum ánægðir með að fá hann heim og að hann hafi ákveðið að koma í KR. Finnur er mikill karakter og fæddur leiðtogi. Finnur hefur mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur og hefur spilað lengi í meistaraflokki,“ sagði Bjarni um komu Finns Orra í Vesturbæinn. 

„Við reyndum að Finn til liðs við okkur í fyrra og milli þess tíma og núna hefur hann bætt við ári sem atvinnumaður þar sem hann stóð sig vel. Finnur spilaði vel fyrir Lilleström og hann sinnir sínu starfi ávallt vel og samviskusamlega,“ sagði Bjarni sem fylgdist með Finni Orra í leikjum hans með Lilleström.

„Finnur er ósérhlífinn leikmaður og vinnur þá vinnu fyrir liðið sem liðið þarf á að halda, en hugsar ekki einungis um eigin hag. Við sjáum fyrir okkur að hann spili á miðjunni og við hugsum ekki um Finn í öðru hlutverki en sem miðjumaður,“ sagði Bjarni þegar hann var beðinn um að lýsa Finni Orra sem leikmanni.

„Við erum mjög ánægðir með leikmannahópinn eins og hann er, en það er eins og alltaf í KR að ef að það er möguleiki á að styrkja hópinn þá skoðum við það. Ef að Rasmus Christiansen fer þá erum við ekki með sérlega mikla breidd í öftustu varnarlínu og við þyrftum að bæta við okkur leikmönnum á þeim hluta vallarins,“ sagði Bjarni um stöðu mála hjá KR þessa stundina.

„Það vantaði mögulega náttúrulega bakverði í liðið í fyrra, en Gunnar Þór Gunnar Gunnarson, Aron Bjarki Jósepsson og Sören Fredriksen eru allt fyrirmynda bakverðir þannig að við erum vel mannaðir hvað það varðar,“ sagði Bjarni þegar hann var spurður að því hvort hann teldi vanta bakverði í leikmannahóp KR. 

„Við erum einnig með unga og efnilega leikmenn sem geta leyst þessar stöður og þeir munu fá tækifæri í vetur til þess að sýna fram á að þeir geti valdið þeim hlutverkum sem þeir fá,“ sagði Bjarni aðspurður um hvort stæði til að bæta við varnarmönnum við leikmannhópinn á næstunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert