Kristinn og Grimsley með flestar stoðsendingar

Kristinn Jónsson úr Breiðabliki og Kayla Grimsley úr Þór/KA áttu flestar stoðsendingar í Pepsi-deildum karla og kvenna á árinu 2015.

Þetta kemur fram í bókinni Íslensk knattspyrna 2015 eftir Víði Sigurðsson sem var kynnt á fréttamannafundi í dag, þar sem þau fengu verðlaun fyrir frammistöðu sína frá Bókaútgáfunni Tindi, ásamt þeim sem höfnuðu í næstu sætum á eftir í báðum deildum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Kristinn á flestar stoðsendingar en þær voru 9 talsins hjá honum í deildinni í ár. Grimsley hlýtur hinsvegar þessa viðurkenningu í annað skipti en hún lagði upp 14 mörk fyrir Þór/KA í Pepsi-deild kvenna á þessu ári.

Mjótt var á mununum í Pepsi-deild karla því Hilmar Árni Halldórsson úr Leikni R. var annar með 8 stoðsendingar og Kristinn komst framúr honum með því að leggja upp mark í uppbótartíma í lokaumferð deildarinnar. Jón Vilhelm Ákason úr ÍA, Atli Guðnason úr FH og Jacob Schoop úr KR komu næstir með 7 stoðsendingar hver.

Sama er að segja um Pepsi-deild kvenna því Grimsley tryggði sér efsta sætið með því að leggja upp fjögur mörk í síðustu þremur leikjum Akureyrarliðsins. Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni varð í öðru sæti með 13 stoðsendingar og síðan komu Fanndís Friðriksdóttir úr Breiðabliki, Kristín Erna Sigurlásdóttir úr ÍBV og Sarah Miller úr Þór/KA með 11 stoðsendingar hver.

Bókaútgáfan Tindur veitti jafnframt árleg heiðursverðlaun sín. Þau hlaut að þessu sinni Tryggvi Guðmundsson fyrir einstæðan árangur sinn á ferlinum, bæði innanlands og utan, hvað varðar markaskorun, stoðsendingar og leikjafjölda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert