Gunnar Gunnarsson hefur framlengt samning sinn við Val um eitt ár og rennur samningurinn því ekki út fyrr en eftir næstkomandi keppnistímabil.
Gunnar er 22 ára gamall varnarmaður, en hann lék níu leiki fyrir Val síðasta sumar, átta í deild og einn í bikar.
Gunnar ólst upp hjá Stjörnunni en hefur síðan þá verið samningsbundinn Víkingi R, Hamri og Gróttu. Gunnar kom til Vals frá Gróttu fyrir tveimur árum síðan.
„Helsta ástæðan fyrir því að vera áfram er að mér líður vel í Val og hér hef ég allt sem ég þarf til þess að bæta mig í fótbolta," sagði Gunnar við vefsíðu Vals, valur.is.
„Við erum með góða leikmenn og sterka liðsheild og svo hafa þjálfararnir sýnt að þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera," sagði Gunnar enn fremur.
„Ég er mjög bjartsýnn fyrir næsta tímabil, það er sami kjarni og í fyrra og ég tel að það hafi verið mjög sterkt að halda honum. Síðasta tímabil var frábær upplifun og forréttindi að fá að taka þátt í því en ég vona og ég trúi því að við getum gert enn betur á næsta tímabili, sagði Gunnar um framhaldið á Hlíðarenda.