Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason er eftirsóttur eftir frábæra frammistöðu með Norrköping í Svíþjóð á nýliðnu keppnistímabili. Samkvæmt sænskum fjölmiðlum hafa lið frá Englandi, Þýskalandi, Austurríki og Tyrklandi áhuga á Keflvíkingnum knáa.
Arnór lagði upp 10 mörk í deildinni í sumar, flestar allra, og skoraði auk þess sjö mörk. Arnór lagði til að mynda upp fyrra mark Norrköping og skoraði það síðara í 2:0 sigri á Malmö í lokaumferðinni, sem tryggði liðinu sænska meistaratitilinn.
Arnór kórónaði síðan frábært tímabil með því að leika fyrstu landsleiki sína í nóvember, gegn Póllandi og Slóvakíu.
Þrátt fyrir mikinn áhuga hafa engin tilboð borist og heimildamaður sænska dagblaðsins Folkebladet segir að Arnór, sem kom til Svíþjóðar frá Keflavík í fyrra, sé rólegur yfir stöðu mála.
„Árið 2016 verður spennandi hjá Arnóri. Hann hefur staðið sig mjög vel og á möguleika á því að vera í landsliðshópi Íslands á EM í Frakklandi, standi hann sig vel í landsleikjunum sem Ísland leikur í janúar,“ segir umræddur heimildamaður en Ísland leikur þrjá vináttulandsleiki í næsta mánuði.
„Honum líður vel og hann stendur sig vel í Norrköping. Arnór hefur tekið stórstígum framförum hér og leikur stórt hlutverk í liðinu. Auðvitað vilja menn samt alltaf ná eins og langt og hægt er.“