Belenenses leggur fram tilboð í Emil

Emil Pálsson sem er hér lengst til vinstri gæti verið …
Emil Pálsson sem er hér lengst til vinstri gæti verið á leiðinni til Portúgal. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Portúgalska félagið Belenenses hefur óskað eftir því að fá Emil Pálsson, leikmann FH í knattspyrnu, á láni með möguleika á kaupum þegar lánstímanum lýkur. Það er Fótbolti.net sem greinir frá þessu.  

„Ég er bara búinn að fá að vita að þetta tilboð er komið. Það liggur á milli FH og liðsins núna að ná endum saman. Ég er ekki nógu vel upplýstur til að segja þér hvað er í gangi," sagði Emil í viðtali við Fótbolta.net eftir leik FH gegn KR í Fótbolta.net mótinu í gærkvöldi.

Emil er á leiðinni til Abu Dhabi á morgun með íslenska landsliðinu, en hann er nýliði í leikmannahópi íslenska landsliðsins sem mætir Finnlandi og Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum í vináttulandsleikjum ytra um miðjan mánuðinn.

Belenenses er í 11. sæti af 18 liðum í portúgölsku úrvalsdeildinni, en félagið hefur reynslu af því að hafa íslenska leikmenn innanborðs. Eggert Gunnþór Jónsson og Helgi Valur Daníelsson spiluðu með liðinu tímabilið 2013/2014.

Emil Pálsson er 22 ára gamall, en hann var valinn leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert