Knattspyrnumaðurinn Adam Örn Arnarson sem hefur verið á mála hjá danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland er genginn í raðir norska úrvalsdeildarliðsins Aalesund.
Adam er 20 ára gamall hægri bakvörður. Hann spilaði með Breiðabliki áður en hann samdi við hollenska liðið Nijmegen þar sem hann lék með unglingaliðinu en hefur verið í herbúðum Nordsjælland frá árinu 2014 þar sem hann lék 16 leiki með liðinu í úrvalsdeildinni. Hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands, þar af sex leiki með U21 ára liðinu.
Hjá Aalesund hittir Adam fyrir tvo Íslendinga, Aron Elís Þrándarson og Daníel Leó Grétarsson, en þremenningarnir hafa verið samherjar í 21-árs landsliði Íslands.