Deildabikar karla í knattspyrnu, sem ber nafnið Lengjubikarinn eins og mörg undanfarin ár, hefst í kvöld. Nú eru tuttugu ár síðan mótið var fyrst haldið, árið 1996, og þetta er því 21. mótið í röðinni.
Breiðablik er handhafi bikarsins eftir sigur á KA, 1:0, í úrslitaleik í fyrra þar sem Ellert Hreinsson skoraði sigurmarkið. Þetta var annar sigur Kópavogsliðsins sem vann líka 2013 en FH hefur unnið keppnina sex sinnum og KR fimm sinnum.
Að vanda leika liðin 24 í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins í A-deild Lengjubikarsins og riðlarnir eru þannig skipaðir:
1. riðill: Stjarnan, Valur, ÍBV, Keflavík, Fram og Huginn.
2. riðill: Breiðablik, Fylkir, Víkingur Ó., KA, Fjarðabyggð, Selfoss.
3. riðill: KR, ÍA, Víkingur R., Grindavík, Haukar, HK.
4. riðill: FH, Fjölnir, Þróttur R., Leiknir R., Þór, Leiknir F.
Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast í átta liða úrslit keppninnar.
Íslandmeistarar FH mæta Fjölni í fyrsta leiknum klukkan 19 í kvöld í Egilshöllinni og þar á eftir mætast Reykjavíkurliðin Þróttur og Leiknir. Síðan er fjöldi leikja um helgina og fyrstu umferð lýkur á þriðjudagskvöldið. vs@mbl.is