Glæsimark Höskuldar dugði ekki

Höskuldur Gunnlaugsson t.h. skoraði glæsilegt mark í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson t.h. skoraði glæsilegt mark í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Breiðablik og Víkingur Ólafsvík skildu jöfn, 2:2, í 2. riðli A-deildar Lengjubikarsins í knattspyrnu karla í Fífunni í Kópavogi í kvöld. Breiðablik komst þar með upp að hlið Fylkis í efsta sæti riðilsins með sjö stig en Víkingar eru stigi á eftir.

Það blés byrlega fyrir Breiðablik í fyrri hálfleik. Höskuldur Gunnlaugsson kom liðinu yfir á 17. mínútu með glæsilegu marki þegar hann spyrnti knettinum með hjólhestaspyrnu úr miðjum vítateignum eftir fyrirgjöf frá hægri kanti. Atli Sigurjónsson tvöfaldaði forskot Breiðabliks fjórum mínútum síðar. Þar við sat í hálfleik. 

Síðari hálfleikur var aðeins tveggja mínútna gamall þegar Kenan Turudija hafði minnkað muninn fyrir Víkinga úr Ólafsvík. Sjö mínútum síðar jafnaði Hrvoje Tokic metin. Þar við sat. 

Leiknir frá Fáskrúðsfirði gerði sér lítið fyrir og vann úrvalsdeildarlið Þróttar úr Reykjavík, 2:1, í 4. riðli A-deildar í Egilshöllinni. Ekkert mark var skoraði í fyrri hálfleik. Kristófer Páll Viðarsson kom Leiknismönnum yfir á 54. mínútu. Aðeins átta mínútum síðar jafnaði Emil Atlason metin fyrir Þrótt. Kristófer Páll hafði hinsvegar ekki sagt sitt síðast orð. Hann skoraði annað mark á 74. mínútu og það reyndist vera sigurmarkið þegar upp var staðið. 

Þetta var fyrsti sigur Leiknis frá Fáskrúðsfirði í Lengjubikarnum á þessari leiktið en liðið leikur í 1. deild karla í fyrsta sinn á þessu ári. Þróttarar reka lestina í riðlinum án stiga eftir þrjá leiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert