Katrín Ómarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, missir nær örugglega af fyrsta leik Doncaster í ensku atvinnudeildinni, WSL, sem fram fer á morgun. Keppni í deildinni hefst í kvöld með þremur leikjum.
Katrín stefnir hinsvegar fullum fetum á landsleik Íslands og Hvíta-Rússlands í undankeppni EM sem fram fer 12. apríl.
Katrín tognaði aftan í læri í leik Íslands og Danmerkur í Algarve-bikarnum fyrr í þessum mánuði og missti fyrir vikið af bikarleik Doncaster og Chelsea um síðustu helgi.
Chelsea, sem varð enskur meistari í fyrsta skipti 2015, vann þann leik 4:1 og liðin mætast aftur í deildinni á morgun, aftur á heimavelli Doncaster.
„Það er mjög ólíklegt að ég komi við sögu í þessum leik. Þetta var annars stigs tognun, sem vanalega tekur 3-4 vikur að jafna sig af, og ég er enn að vinna úr henni. Ég er farin að hlaupa á 80 prósent hraða en þetta tekur bara tíma og ég hef ekkert æft með liðinu ennþá. Ég verð vonandi komin á fullt sem fyrst og stefni að því að vera klár í slaginn 12. apríl, ef Freyr velur mig í liðið. Við eigum ekki aftur deildaleik fyrr en seint í apríl þannig að ég hef gott svigrúm til að ná mér alveg,“ sagði Katrín við Morgunblaðið í gær.
Sjá allt viðtalið við Katrínu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag