Pétur Hreinsson í Herning
Haukur Heiðar Hauksson fékk tækifærið í hægri bakverði hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í kvöld sem tapaði 2:1 gegn Dönum í vináttulandsleik í Herning í Danmörku.
Haukur, sem leikur fyrir AIK í Svíþjóð, segir að hann hugsi um lítið annað en að standa sig með félagsliðinu sem og með landsliðinu þegar kallið kemur en þann 9. maí verður lokahópurinn sem fer á EM í Frakklandi valinn. Haukur komst vel frá sínu í kvöld.
„Maður hugsar ekki um mikið annað en að spila vel fyrir AIK og vonar svo bara að vera valinn í hópinn. Maður vonar bara það besta alltaf,“ sagði Haukur við mbl.is í kvöld.
„Þetta var erfiður leikur. Danir eru góðir og voru að spila vel. Mér fannst við standa okkur vel í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik, 20 mínútur í seinni hálfleik, þá fór skipulagið hjá okkur og þeir nýttu það vel og skoruðu tvö mörk. Það var klaufaskapur,“ sagði Haukur.
Hann segir stemninguna í landsliðshópnum góða en að mikil spenna sé í hópnum fyrir því risavaxna verkefni sem er framundan í Frakklandi.
„Stemningin er alltaf góð í þessum hóp. Það eru flottir strákar í þessum hóp, það kemur öllum vel saman og það er góð stemning. Menn eru spenntir, en ekki stressaðir eða neitt þannig. Bara spenntir að prófa þetta,“ sagði Haukur Heiðar.