Vildum ólmir vinna Danina

Kolbeinn Sigþórsson
Kolbeinn Sigþórsson

Í Herning

Kolbeinn Sigþórsson hefur oft komið meira við sögu í landsleikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu heldur en hann gerði í kvöld í 2:1 tapinu gegn Dönum í Herning í vináttulandsleik þjóðanna.

Eftir ágæta byrjun á leiknum náði íslenska liðið  ekki að halda boltanum mikið innan liðsins og Kolbeinn og Alfreð Finnbogason fengu ekki úr mjög miklu að moða í fremstu víglínu.

„Mér fannst völlurinn erfiður, við vorum í basli með að halda boltanum þegar við fengum hann frammi. Við fengum tvo-þrjá varnarmenn alltaf í bakið á okkur þegar boltinn kom. Við lágum svolítið aftarlega líka og það var erfitt að fá upp spil þegar við fengum loksins boltann,“ sagði Kolbeinn við mbl.is í kvöld.

„Þetta var ekki okkar besti leikur. En það er allt í lagi, þetta var æfingaleikur sem betur fer, við náum einhvern alltaf að rífa okkur fyrir alvöru leiki. En það er svekkjandi að hafa ekki náð að sýna betri leik,“ sagði Kolbeinn við mbl.is í kvöld.

Eftir að Ísland tryggði sig inn á EM með jafnteflinu gegn Kasakstan á Laugardalsvelli í september hefur liðið aðeins unnið einn leik af síðustu átta leikjum. Þeir þó ekki allir skipt mjög miklu máli.

„Það er alltaf betra að vinna leiki og halda sigurhefð. Við vildum ólmir vinna Danina,“ sagði Kolbeinn sem segir þó sjálfstraust leikmanna ekki hafa beðið neinn skaða.

„Ég held ekki. Ég held að þetta sé ekki að fara neitt í hausinn á mönnum þótt við töpum á móti Dönum. Við vorum að verjast vel í fyrri hálfleik og ná að loka. Svo fá þeir skyndisóknir og refsa okkur,“ sagði Kolbeinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert