„Ætlaði mér að skora“

Damir Muminovic.
Damir Muminovic. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég sagði við strákana fyrir leikinn í kvöld að ég ætlaði mér að skora og það var ansi sætt að sjá hann fara í netið og um leið að tryggja mínu liði fyrstu stigin í deildinni,“ sagði Damir Muminovic miðvörður Breiðabliks, við mbl.is eftir sigur Kópavogsliðsins gegn Fylkismönnum, 2:1, í Pepsi-deildinni.

Damir skoraði sigurmark Blikanna 10 mínútum fyrir leikslok.

„Ég náði að renna mér á boltann. Skotið var ekkert sérstaklega gott en nógu gott til þess að boltinn fór í netið. Það var nauðsynlegt að ná í sigur hérna eftir slæmt tap á móti Víkingi Ólafsvík í fyrstu umferðinni. Frammistaðan var ágæt hjá okkur en við getum spilað miklu betur en þetta. Á meðan við hins vegar vinnum þá er mér alveg sama hvernig við spilum,“ sagði Damir sem var besti maður vallarins í veðurblíðunni í Árbænum í kvöld.

„Það er ekki spurning að þessi sigur gefur okkur byr í seglin og eflir sjálfstraustið í liðinu.  Nú liggur bara leiðin upp á við,“ sagði Damir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert