Arnar losnar úr skammarkróknum

Kristófer Sigurgeirsson, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, stýrði liðinu af hliðarlínunni í fjarveru …
Kristófer Sigurgeirsson, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, stýrði liðinu af hliðarlínunni í fjarveru Arnars Grétarssonar. mbl.is / Árni Sæberg

Breiðablik fær Víking Reykjavík í heimsókn í lokaleik þriðju umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, sem hóf leiktíðina í tveggja leikja banni frá hliðarlínunni mætir aftur til leiks í þessum leik. 

Þá getur framherjinn Jonathan Glenn, sem skoraði 12 mörk í deildinni í fyrra fyrir ÍBV og Breiðablik og fékk silfurskóinn, spilað sinn fyrsta leik en hann var líka í tveggja leikja banni eftir brottvísun í lokaumferðinni í fyrra.

Breiðablik tapaði fyrir Víkingi Ólafsvík í fyrstu umferðinni, en nældi sér svo í sín fyrstu stig þegar liðið lagði Fylki að velli í síðustu umferð. Víkingur er aftur á móti með eitt stig eftir jafntefli við KR í fyrstu umferðinni, en liðið laut í gras gegn Stjörnunni í síðustu umferð. 

Þetta er í 34. skipti sem liðin mætast í efstu deild, en nokkuð jafnt er komið með liðunum. Breiðablik hefur borið sigur úr býtum í níu leikjum, Víkingur í tólf og þrettán sinnum hafa liðin skilið jöfn. 

Liðin gerðu 2:2 jafntefli í fyrri leik liðanna á Víkingsvellinum síðasta sumar þar sem Vladimir Tufegdzic og Ívar Örn Jónsson skoruðu mörk Víkings, en Oliver Sigurjónsson og Höskuldur Gunnlaugsson svöruðu fyrir Blika. 

Breiðablik hafði svo betur 4:1 í seinni leik liðanna á Kópavogsvellinum, þar skoraði Kristinn Jónsson tvö mörk fyrir Breiðabik og Höskuldur Gunnlaugsson og Ellert Hreinsson eitt mark hvor. Rolf  Toft minnkaði hins vegar muninn fyrir Víking.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert