Þrír síðari leikirnir í fjórðu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fara fram í kvöld, þegar Stjarnan freistar þess að ná efsta sætinu á ný úr höndum Ólafsvíkinga, og bæði Víkingur R. og Þróttur leitast við að vinna sinn fyrsta leik. Hér kemur eitt og annað sem tengist leikjum kvöldsins.
Víkingsvöllur kl. 19.15.
Þetta er 86. viðureign Reykjavíkurfélaganna á Íslandsmóti og í efstu deild og saga þeirra er orðin 98 ára gömul því þau mættust í fyrsta skipti árið 1918. Þá unnu Víkingar stórsigur, 5:0. Þeir lögðu Valsstrákana sex sinnum í sjö fyrstu viðureignum félaganna á Íslandsmótinu og Valur náði ekki sínum fyrsta sigri fyrr en árið 1927. Þá urðu þeir hinsvegar tíu í röð og Víkingur vann Val ekki aftur á Íslandsmótinu fyrr en árið 1948.
Valur hefur nú unnið 47 viðureignir af 85 en Víkingur hefur unnið 19 og 19 sinnum hafa félögin skilið jöfn. Markatalan er 190:103, Valsmönnum í hag.
Víkingur hefur hinsvegar ekki tapað fyrir Val undanfarin tvö ár en þá hafa báðir leikir liðanna í Fossvogi endaði með jafntefli og Víkingur unnið báðar viðureignirnar á Hlíðarenda. Í fyrra urðu lokatölur í Víkinni 2:2 þar sem Pape Mamadou Faye og Agnar Darri Sverrisson skoruðu fyrir Víking en Kristinn Freyr Sigurðsson og Patrick Pedersen fyrir val. Kristinn er sá eini af þessum fjórum sem eftir í liðunum tveimur. Seinni leikinn á Hlíðarenda vann Víkingur 1:0 þar sem Ívar Örn Jónsson skoraði sigurmarkið.
Mesti markaleikur liðanna á milli á seinni árum var árið 1999. Þá skoraði Sigurbjörn Hreiðarsson, núverandi aðstoðarþjálfari Vals, þrennu á Laugardalsvellinum en var samt í tapliði því Víkingur vann leikinn 5:4. Bæði liðin féllu þá um haustið. Daníel Hafliðason og Jón Grétar Ólafsson gerðu tvö mörk hvor fyrir Víking í þeim leik.
Þróttarvöllur kl. 19.15
Þó þessi félög eigi orðið ansi mörg ár í efstu deild hafa þau ekki verið svo oft þar bæði í einu. Þetta er áttunda árið sem þau mætast þar og leikirnir eru fjórtán til þessa.
Þróttur og Breiðablik mættust fyrst í efstu deild árið 1976 og þá hafði Breiðablik betur í báðum leikjunum. Hinrik Þórhallsson skoraði þrennu fyrir Blika og Þorgeir Þorgeirsson bæði mörk Þróttar í 3:2 sigri Breiðabliks á Kópavogsvellinum. Seinni leikinn í Laugardal unnu Blikar 2:1 og þá skoraði Hinrik aftur en Ævar Erlendsson gerði hitt mark liðsins. Leifur Harðarson, kunnari sem einn besti blakmaður landsins, skoraði þá mark Þróttar.
Tveimur árum síðar unnu Þróttarar báða leiki liðanna, 4:2 í Laugardal og 4:1 á Kópavogsvelli. Í fyrstu viðureigninni, á Laugardalsvellinum 23. júní 1978, skoruðu þeir Árni Valgeirsson, Páll Ólafsson (landsliðsmaður í handbolta), Þorvaldur Þorvaldsson og Þorgeir Þorgeirsson fyrir Þrótt en Ólafur Friðriksson og Hákon Gunnarsson fyrir Blika.
Páll Ólafsson var Blikum aftur erfiður árið 1983 þegar hann skoraði tvívegis í 3:2 sigri þeirra á Kópavogsvelli.
Af fjórtán viðureignum félaganna í deildinni hefur Breiðablik unnið fimm og Þróttur fjórar en fimm sinnum hafa þau skilið jöfn. Markatalan er 23:18, Þrótti í hag.
Síðasta leik liðanna, sumarið 2009, vann Þróttur 4:0 þar sem Haukur Páll Sigurðsson, núverandi fyrirliði Vals, gerði tvö markanna. Blikar unnu fyrri leikinn 2:1 þar sem Kristinn Steindórsson og Alfreð Finnbogason skoruðu fyrir þá grænklæddu en Hjörtur Júlíus Hjartarson gerði mark Þróttar.
Alvogen-völlurinn kl. 20.00
KR hafði til skamms tíma mikið tak á Stjörnunni en frá 1990 til 2012 náðu Garðbæingar ekki að vinna einn einasta leik af 20 gegn Vesturbæingum í efstu deild.
Ísinn var brotinn sumarið 2013 þegar Stjarnan vann 3:1 á heimavelli og nú hefur Stjarnan unnið fjóra af sex síðustu leikjum sínum við KR. Meðal annars báða leikina árið 2014 og liðin unnu sinn leikinn hvort í fyrra. Þá skoraði Almarr Ormarsson sigurmark KR á í Garðabænum, 1:0, en Veigar Páll Gunnarsson, Guðjón Baldvinsson og Pablo Punyed skoruðu fyrir Stjörnuna í 3:0 sigri í Vesturbænum.
Þegar Stjarnan vann KR í fyrsta sinn árið 2013 var Kennie Chopart, núverandi KR-ingur, á meðal markaskorara Stjörnunnar og Baldur Sigurðsson, núverandi fyrirliði Stjörnunnar, skoraði mark KR.
Þegar liðin mættust fyrst, árið 1990, vann KR 3:1 sigur á Stjörnuvellinum. Ragnar Margeirsson gerði tvö marka KR og Björn Rafnsson eitt en Lárus Guðmundsson skoraði fyrir Stjörnuna. KR vann seinni leikinn 1:0 á KR-vellinum og þá skoraði Ragnar heitinn sigurmarkið.
Samtals hefur KR unnið 13 af 26 viðureignum félaganna í efstu deild en Stjarnan fjórar. Níu sinnum hafa þau skilið jöfn og markatalan er 49:29, KR í hag.