Oliver Sigurjónsson miðjumaður Breiðabliks sagði eftir ósigurinn gegn Þrótti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld, 2:0 á Þróttarvellinum, að Blikar hefðu verið miklu betri aðilinn en hefði samt vantað gæðin sem þurfti til að sækja þrjú stig í Laugardalinn.
Þróttarar komu í leikinn eftir 6:0 skell gegn Stjörnunni en Oliver neitað því strax þegar mbl.is spurði hann hvort um vanmat hefði verið að ræða vegna þeirra úrslita.
"Nei, ég er ekki sammála því en okkur vantaði gæði í okkar leik. Við vorum miklu betri aðilinn, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir komust þá einu sinni inn í vítateig hjá okkur, og skoruðu þetta mark, en annars áttu þeir ekki breik. En samt vorum við ekki nógu góðir, svo mikið er víst.
Auðvitað voru Þróttarar særðir eftir að hafa tapað stórt og það er eflaust hægt að kalla þetta vanmat en ég held að svo hafi alls ekki verið. Við yfirtókum leikinn en svo fengum við á okkur þetta rauða spjald, sem ég er mjög ósammála, og vonandi sést betur í sjónvarpinu að hafi verið rangur dómur.
En við vorum ekki nógu góðir, skoruðum ekki mörk til að vinna leikinn og það voru greinilega ekki nógu mikil gæði í liðinu til að vinna í dag. Við sköpuðum okkur samt fleiri færi en Þróttararnir, sem lágu skiljanlega til baka, marki yfir og manni fleiri, en við verðum að skora úr færunum okkar. Þetta gengur ekki vel hjá okkur á móti liðum sem verjast aftarlega en það jákvæða við þennan leik, miðað við Víkingsleikinn, er að við sköpuðum okkur marktækifæri," sagði Oliver.
Hann tók undir að það væri erfitt að spila gegn Þrótturum, sérstaklega þegar þeir væru komnir yfir í leik.
"Já, algjörlega. Þeir voru góðir í dag og náðu að skora þetta fyrsta mark sem er svo mikilvægt. Einhver tölfræði segir að ef þú skorar á undan sé 60-70 prósent líkur á að þú vinnir leikinn. Þeir höfðu það með sér, voru vissulega erfiðir en við áttum samt að gera betur. Við erum með betra fótboltalið og betri leikmenn en gæðin voru ekki til staðar í kvöld." sagði Oliver.
Þið eruð búnir að vinna tvo leiki en hinsvegar tapa tveimur gegn liðunum sem komu upp úr 1. deild. Eru þetta ekki ákaflega dýr stig sem þarna eru farin í súginn?
"Jú, heldur betur. Þetta er nákvæmlega það sem felldi okkur í fyrra. Þá töpuðum við fjórum stigum á móti liðunum sem féllu og misstum af titlinum á tveimur stigum. Það eru akkúrat þessir leikir sem FH vinnur. Við þurfum að fara í mikla naflaskoðun með þetta. Ég trúi því ekki að þetta sé vanmat, en kannski er það bara málið. Kannski er þetta eitthvað í hausnum á okkur en við náum ekki að brjóta þennan múr og það er umhugsunarefni fyrir okkur," sagði Oliver Sigurjónsson.