Fimmta umferðin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu hófst í gær með leik ÍA og Fylkis í dag og lýkur með uppgjöri Stjörnunnar og FH annað kvöld.
Fjórir leikjanna fara fram í dag og kvöld og hér er eitt og annað um þá:
Hásteinsvöllur kl. 17.
Liðin unnu hvort annað í fyrra. ÍBV vann 3:2 í Eyjum, þar sem Hafsteinn Briem skoraði fyrsta markið, og Andri Rúnar Bjarnason tryggði Víkingi 1:0 sigur í Fossvoginum.
ÍBV hefur unnið 21 af 47 viðureignum félaganna í efstu deild frá 1926, Víkingur hefur unnið 16 og 10 endað með jafntefli. Markatalan er 83:78, ÍBV í hag.
Viktor Bjarki Arnarsson, núverandi fyrirliði Víkings, skoraði sigurmarkið í 1:0 sigri í Eyjum árið 2006 og hann gerði líka tvö mörk í seinni leik liðanna í Fossvogi sem endaði 5:0.
Valsvöllur kl. 19.15
Félögin mættust síðast í deildinni árið 2009. Sigurbjörn Hreiðarsson, núverandi aðstoðarþjálfari, skoraði sigurmark Vals, 2:1, á Hlíðarenda og Helgi Sigurðsson, núverandi aðstoðarþjálfari Víkings, tryggði Val 1:0 sigur í seinni leiknum í Laugardal.
Valur hefur unnið 24 af 33 viðureignum félaganna í efstu deild frá 1953. Þróttur hefur unnið 6 og 3 leikir hafa endað með jafntefli. Markatalan er 79:35, Val í hag.
Þróttur vann þó fyrsta leikinn í efstu deild sem var spilaður á Hlíðarenda og lagði þá Val 4:1 árið 1983 þar sem Páll Ólafsson, landsliðsmaður í handbolta, var í aðalhlutverki og skoraði eitt markanna.
Fjölnisvöllur kl. 19.15.
Þessi félög hafa aldrei áður mæst í efstu deild. Fjölnir fór upp úr 1. deildinni 2013 þegar Ólsarar voru í úrvalsdeildinni.
Þau mættust síðast í 1. deild 2012. Fyrst varð 1:1 jafntefli í Ólafsvík þar sem Edin Beslija skoraði fyrir Víking og Ómar Hákonarson fyrir Fjölni. Víkingur vann svo 2:1 í Grafarvogi, í uppgjöri tveggja efstu liða eins og staðan var þá. Ómar skoraði aftur fyrir Fjölni en Guðmundur Magnússon og Eldar Masic gerðu mörk Víkings. Þessi leikur var vendipunktur fyrir Fjölni sem var á toppnum fyrir hann en vann bara tvo leiki í seinni umferðinni og endaði í 7. sæti.
Kópavogsvöllur kl. 20.
Liðin skildu jöfn í báðum leikjum í fyrra. Fyrst 2:2 í Kópavogi þar sem Höskuldur Gunnlaugsson og Guðjón Pétur Lýðsson skoruðu fyrir Blika en Óskar Örn Hauksson og Sören Frederiksen fyrir KR. Seinni leikurinn í Frostaskjóli endaði 0:0.
KR hefur unnið 28 af 58 viðureignum félaganna í efstu deild frá 1971, Breiðablik hefur unnið 13 og 17 endað með jafntefli. Markatalan er 87:58, KR í hag.
Síðustu árin hefur Breiðablik samt haft tak á KR og aðeins tapað einu sinni í síðustu átta leikjum gegn Vesturbæingum.
Fyrsti leikur liðanna í efstu deild fór fram á Melavellinum, þáverandi heimavelli Breiðabliks, 24. júní árið 1971. Blikar unnu, 1:0, þar sem Haraldur Erlendsson skoraði sigurmark nýliðanna úr Kópavogi en samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins var hann besti leikmaður Kópavogsliðsins þann dag.