Þýðir ekkert að grenja

Höskuldur Gunnlaugsson í baráttu við Óskar Örn Hauksson á Kópavogsvelli …
Höskuldur Gunnlaugsson í baráttu við Óskar Örn Hauksson á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Ófeigur

Höskuldur Gunnlaugsson sneri aftur í byrjunarlið Breiðabliks í kvöld, eftir að hafa verið utan byrjunarliðsins í síðustu þremur leikjum, og skoraði eina markið í sigrinum á KR í 5. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu.

Höskuldur, sem átti frábært tímabil í fyrra, skoraði sigurmarkið tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks:

„Þetta var baráttuleikur og kannski ekki fallegasti fótboltinn. Eftir að við náðum að skora markið létti aðeins á okkur og við náðum að halda betur í boltann og færa hann á milli svæða. Þeir loka gífurlega mikið og setja pressu, en þá opnast annars staðar og mér fannst við nýta okkur það betur eftir markið. En þetta var fyrst og fremst baráttusigur,“ sagði Höskuldur.

„Við féllum aðeins of aftarlega, því við þurftum ekki að gera það. Þegar þeir koma svona framarlega eins og þeir gerðu opnast svæði bak við þá sem við vorum ekki alveg nógu duglegir við að hlaupa í. Ég get samt ekki verið annað en ánægður með leikinn,“ sagði Höskuldur.

Sigurmarkið var fyrsta mark Höskuldar á tímabilinu en eins og fyrr segir hefur hann spilað minna en hann hefði kosið:

„Ég var að sjálfsögðu ósáttur við að vera á bekknum, og þjálfarinn vill að þá séu menn ósáttir, en ég ákvað bara að svara inni á vellinum. Það er það eina sem ég get gert. Þjálfarinn velur liðið og ég reyni bara að spila minn leik. Auðvitað er maður ekki sáttur við að vera á bekknum en ég er ekkert að grenja,“ sagði Höskuldur, sem var nálægt því að koma sér út í atvinnumennsku með frammistöðu sinni síðasta sumar:

„Ég er bara að komast meira og meira inn í þetta á þessu tímabili. Það voru pínu vonbrigði að komast ekki út, en það þýðir ekkert að væla heldur bara að gera betur núna,“ sagði Höskuldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka