„Skoruðum alla vega og héldum hreinu“

Elísa Viðarsdóttir skoraði sigurmark Vals.
Elísa Viðarsdóttir skoraði sigurmark Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðvörðurinn Elísa Viðarsdóttir varð fyrst til þess að skora gegn FH í Pepsí-deild kvenna í knattspyrnu í sumar. Hún skoraði eina markið í viðureign Vals og FH í dag með skalla eftir hornspyrnu. 

„FH-liðið er þétt til baka og beitir oft skyndisóknum. Maður þarf að vera skipulagður á móti þeim og reyna að fá hreyfingu á vörn þeirra, til þess að fá þær út úr stöðum þannig að opnist pláss fyrir aftan þær. Mér fannst það ganga vel í dag nema að stundum vantaði endahnútinn á sóknirnar. Við náðum alla vega að skora eitt og halda hreinu,“ sagði Elísa sem var nokkuð ánægð með spilamennskuna. Hún segir Valsliðið einnig hafa spilað nokkuð vel í fyrstu tveimur leikjunum þrátt fyrir að liðið gerði þá tvö jafntefli. 

„Mér fannst við spila vel á köflum og náðum að þræða okkur ágætlega í gegn en vantaði bara aðeins upp á. Þetta var svolítið stöngin út hjá okkur. Þannig var það einnig í fyrstu tveimur leikjunum því þá fannst mér við einnig spila vel. Þá hefðum við kannski getað nýtt færin betur en í fyrstu tveimur leikjunum var einnig klaufaskapur hjá okkur í vörninni,“ sagði Elísa ennfremur í samtali við mbl.is í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert