„Hann sló mig í punginn“

Mikkel Maigaard kom til ÍBV í vetur.
Mikkel Maigaard kom til ÍBV í vetur. Ljósmynd/Eyjafrettir

„Ég braut á honum, og við áttum í einhverjum erjum, eins og gerist í leikjum, en svo sló hann mig. Það var því rétt að dæma rautt spjald,“ sagði Mikkel Maigaard, framherji ÍBV, um rauða spjaldið sem fór á loft í 1:0-sigri liðsins á Þrótti R. í Pepsi-deildinni í fótbolta í dag.

Hallur Hallsson fékk rauða spjaldið nokkrum mínútum fyrir leikhlé eftir að hafa slegið til Maigaard. Höggið virtist laust en Daninn kvaðst sannfærður um að það hefði verið rétt að vísa Halli af velli.

„Hann sló mig í punginn. Það er ekki nokkurt vafamál að það þýðir rautt spjald,“ sagði Maigaard. En hafði hann gert Halli eitthvað sem kallaði á högg? „Ég var búinn að brjóta á honum og hann hafði verið að brjóta á mér. Þannig gengur baráttan fyrir sig í svona leikjum,“ sagði Maigaard.

Maigaard skoraði eina mark leiksins en það kom úr fyrirgjöf kappans, í kjölfar hornspyrnu:

„Við tókum hornið stutt og svo var fyrirgjöfin, eins og við töluðum um fyrir leik, þannig að hún færi á markið, svo að hún gæti endaði inni. Boltinn fór ekki í neinn og það var bara gaman að skora,“ sagði Maigaard. Hann var óánægður með að ÍBV skyldi ekki skora fleiri mörk og nýta liðsmuninn enn betur:

„Það voru vonbrigði að skora bara eitt mark. Við verðum að vinna í því og gera úrslitasendingarnar betri, svo að við getum gert út um svona leiki. Byrjunin á tímabilinu er ágæt, þó að við gætum verið með aðeins fleiri stig, en við vinnum bara í því,“ sagði Maigaard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert