Breiðablik skaust í toppsætið

Jonathan Ricardo Glenn, framherji Breiðabliks, í góðu færi en Hörður …
Jonathan Ricardo Glenn, framherji Breiðabliks, í góðu færi en Hörður Fannar Björgvinsson, markvörður Stjörnunnar, sér við honum. Grétar Sigfinnur Sigurðarson og Brynjar Gauti Guðjónsson, miðverðir Stjörnunnar, eru ekki langt undan. mbl.is/Styrmir Kari

Breiðablik galopnaði í kvöld toppbaráttuna í Pepsi-deild karla í knattspyrnu með 3:1 sigri á Stjörnunni í 6. umferð í Garðabænum. Breiðablik er með 12 stig eftir fjóra sigra en tvö töp gegn báðum nýliðunum er skaust í efsta sætið. 

Stjarnan er með 11 stig rétt eins og FH og Víkingur frá Ólafsvík. Þá koma Fjölnir og ÍBV með 10 stig. Þegar þriðjungi er lokið af „gamla mótinu“ hefur ekkert lið slitið sig frá og toppbaráttan gæti orðið mjög skemmtileg ef fram heldur sem horfir. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik á gervigrasinu í kvöld komst Breiðablik yfir á 72. mínútu þegar Daníel Bamberg skoraði með skoti úr teignum. Varamaðurinn Atli Sigurjónsson bætti við mark eftir góðan sprett í gegnum miðja vörn Stjörnunnar á 80. mínútu. Varamaðurinn Arnar Már Björgvinsson svaraði um leið fyrir Stjörnuna með skoti úr teignum og Garðbæingar virtust líklegir til að þjarma að Kópavogsbúum á lokamínútunum. Blikar fengu hins vegar skyndisókn og Arnþór Ari Atlason skoraði þá sigurmarkið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Guðmundi Atla Steinþórssyni, enn einum varamanninum. 

Leikurinn var markalaus eftir rúmar 70 mínútur og hafði verið nokkuð opinn. Liðin reyndu að sækja hratt þegar færi gafst en mörkin létu bíða eftir sér. Þegar loksins kom mark þá urðu þau alls fjögur þegar uppi var staðið og fyrsta tap Stjörnunnar í deildinni í sumar staðreynd. 

Baldur Sigurðsson fór meiddur af velli hjá Stjörnunni eftir um fjörtíu mínútna leik en hann meiddist í nára. Þá var Oliver Sigurjónsson tekinn af velli hjá Breiðabliki eftir um fimmtíu mínútna leik en hann var orðinn mjög stífur í kálfanum sem eitthvað hefur verið að stríða honum. 

Stjarnan 1:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Fjórum mínútum verður bætt við leiktímann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka