Sjöttu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, lýkur í kvöld með þremur leikjum þar sem FH tekur á móti Víkingi frá Ólafsvík, Fylkir fær Fjölni í heimsókn og Stjarnan mætir Breiðabliki í grannaslag í Garðabæ.
Ljóst er að staðan á toppi deildarinnar getur tekið talsverðum breytingum í kvöld en fyrir leikina er Stjarnan með 11 stig, FH 10, ÍBV 10, Víkingur Ó. 10, Fjölnir 9, KR 9 og Breiðablik 9 stig í efstu sætunum. Fylkir er í annarri stöðu en hin fimm liðin sem spila í kvöld en Árbæingarnir bíða enn eftir sínum fyrsta sigri og þeir sitja á botninum með aðeins eitt stig eftir fimm leiki.
Þessar þrjár viðureignir eiga það sameiginlegt að á bak við þær er ekki löng saga af leikjum liðanna á milli í efstu deild en þó er sitthvað hægt að tína til þegar að er gáð.
Kaplakriki í kvöld kl. 19.15.
Þessi félög mættust í fyrsta skipti í efstu deild árið 2013, enda var það fyrsta tímabil Ólafsvíkinga á meðal þeirra bestu. FH vann öruggan sigur í Ólafsvík, 4:0, þar sem Freyr Bjarnason (núverandi blaðamaður á mbl.is), Guðmann Þórisson og Atli Viðar Björnsson skoruðu, auk sjálfsmarks. Í Kaplakrika varð hins vegar óvænt jafntefli, 2:2, og FH missti þar dýrmæt stig í slagnum um meistaratitilinn. Björn Daníel Sverrisson og Albert Brynjar Ingason komu FH í 2:0 en Toni Espinosa og Kiko Insa svöruðu fyrir Ólafsvíkinga, auk þess sem Róbert Örn Óskarsson markvörður FH fékk rauða spjaldið.
Félögin höfðu aldrei áður verið í sömu deild en þó voru talsverð tengsl þeirra á milli á árum áður. Nokkrir Ólafsvíkingar léku með FH um skeið, svo sem Magnús Stefánsson, síðar ráðherra, Arnljótur Arnarson, Sigurþór Þórólfsson og Atli Alexandersson. Á hinn bóginn var Magnús Teitsson, fyrrum leikmaður FH (kallaður Skagabaninn á þeim árum), þjálfari og leikmaður Ólafsvíkinga 1983 og 1984 og FH-ingurinn Úlfar Daníelsson þjálfaði þá árið 1996.
Floridana-völlurinn í kvöld kl. 19.15
Reykjavíkurfélögin mættust í fyrsta sinn í efstu deild árið 2008 og höfðu þá aldrei áður verið í sömu deild á Íslandsmóti meistaraflokks karla. Fjölnir vann báða leiki liðanna það sumar, 1:0 í Grafarvogi þar sem Tómas Leifsson skoraði og 3:0 í Árbæ þar sem Davíð Þór Rúnarsson gerði tvö mörk og Pétur Georg Markan eitt.
Í fyrra vann Fjölnir líka stórsigur í Árbænum, þá 4:0, þar sem Þórir Guðjónsson skoraði tvö mörk, Kennie Chopart og Mark Magee eitt hvor. Leikur liðanna í Grafarvogi endaði 1:1 og þá skoraði Guðmundur Karl Guðmundsson fyrir Fjölni og Tonci Radovnikovic fyrir Fylki.
Fjölnir hefur unnið þrjá leiki og Fylkir tvo af átta viðureignum félaganna í deildinni en þau hafa þrisvar skilið jöfn. Markatalan er 16:11, Fjölni í hag.
Samsung-völlurinn í kvöld kl. 20.
Grannliðin í gamla Reykjaneskjördæmi voru í fyrsta skipti bæði í efstu deild árið 1991 og hafa frá þeim tíma mæst þar í 22 skipti. Blikar hafa haft mun betur því þeir hafa unnið helming leikjana, 11 talsins, en Stjarnan hefur aðeins náð að vinna 5 leiki. Markatalan er 44:29, Breiðabliki í hag.
Fyrsta viðureign liðanna fór fram á sandgrasvellinum í Kópavogi (þar sem Fífan stendur nú), í júlí 1991 og þar vann Stjarnan nokkuð óvæntan sigur, 2:0. Valdimar Kristófersson, núverandi ritstjóri Kópavogspóstsins, skoraði bæði mörkin á síðustu fimm mínútum leiksins.
Blikar náðu að hefna í lokaumferðinni um haustið með því að vinna 1:0 sigur á Stjörnuvellinum, þ.e. gamla grasvellinum. Arnar Grétarsson, núverandi þjálfari Breiðabliks, skoraði sigurmarkið en Stjörnumenn voru þegar fallnir. Leikurinn hafði enga þýðingu og aðeins 163 áhorfendur mættu. Þeir verða öllu fleiri í kvöld!
Breiðablk vann báða leikina gegn Stjörnunni í fyrra. Fyrst 3:0 á Kópavogsvelli þar sem löng sigurganga þáverandi Íslandsmeistara var stöðvuð. Guðjón Pétur Lýðsson, Arnþór Ari Atlason og Elfar Freyr Helgason skoruðu mörkin. Seinni leikinn í Garðabæ vann Breiðablik 1:0 og þar skoraði Jonathan Glenn sigurmarkið.
Frá því Stjarnan kom á ný í efstu deild árið 2009 hefur liðinu aðeins tekist að vinna Blika tvisvar á heimavelli, og aðeins fengið eitt stig í sjö heimsóknum í Kópavog. Breiðablik er því það félag sem Stjörnunni hefur gengið hvað verst með á undanförnum árum.
Blikar eiga líka einhverjar sínar bestu minningar frá Samsung-vellinum því þar urðu þeir Íslandsmeistarar haustið 2010 eftir markalaust jafntefli við Stjörnuna í lokaumferðinni, að viðstöddum 2.870 áhorfendum.