Menn gleyma norðurljósunum aldrei

Darren Lough með boltann í leik gegn Breiðabliki.
Darren Lough með boltann í leik gegn Breiðabliki. mbl.is/Eva Björk

„Ég var spurður að því hvort ég vildi koma og spila knattspyrnu á Íslandi. Á þeim tíma vissi ég ekkert um landið og það var líklega síðasti staður á jörðinni sem mér datt í hug að sækja heim,“ segir vinstri bakvörður ÍA, Englendingurinn Darren Lough, í viðtali við síðuna Playing away from home.

Lough gekk til liðs við KA rétt áður en keppni í 1. deildinni hófst fyrir fjórum árum. „Ég fór til Akureyrar á miðvikudegi, skrifaði undir samning á föstudegi og lék minn fyrsta leik með liðinu laugardegi. Þannig byrjaði þetta allt saman,“ segir Lough en hann lék í tvö tímabil með KA í fyrstu deildinni. Árið 2014 gekk hann til liðs við ÍA þar sem hann hefur leikið síðan, fyrsta tímabilið í 1. deild og síðustu tvö árin í Pepsi-deildinni.

Englendingurinn nýtur lífsins á Íslandi en segir sum ferðalög í útileiki framandi miðað við það sem hann var vanur frá tíma sínum með Newcastle og Ashington. „Við höfum þurft að fljúga á stað sem er á norðvesturhluta landsins í 15 sæta flugvél. Það var ekki góð tilfinning en reynslan var góð. Einnig höfum við ferðast á ferju til lítillar eyju á suðurströndinni. Ef þú verður auðveldlega sjóveikur þá er ferjuferðin ekki æskileg rétt fyrir leik.“

Reykjavík er skemmtileg borg

Bakvörðurinn hefur ferðast um landið og þykir það tilkomumikið. „Það er frábært að geta ferðast um landið og skoðað helstu staðina. Einnig er gott að geta gert þetta á meðan ég vinn við að spila fótbolta. Það er skemmtilegt að heimsækja höfuðborgina, Reykjavík. Þar er allt til alls; veitingastaðir, gott næturlíf og mikið af sögulegum stöðum. Það er líka gaman að fara í Bláa Lónið og menn gleyma norðurljósunum aldrei.“

Lough telur að Ísland geti komið á óvart á Evrópumótinu sem hefst í Frakklandi í næstu viku. „Ísland er núna komið á fótboltakortið en þetta sýnir hvað íslenskir leikmenn leggja mikið á sig. Stemningin er frábær og ég yrði ekki hissa þó Ísland gerði góða hluti á EM,“ sagði Lough.

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni hér.

Darren Lough í búningi KA.
Darren Lough í búningi KA. Ljósmynd/ka-sport.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert