Gaman að tap í Noregi sé óásættanlegt

Ari Freyr Skúlason í landsleik.
Ari Freyr Skúlason í landsleik. Ljósmynd/Foto Olimpik

„Það er kannski erfitt að sjá frá hliðarlínunni en það vantaði nokkuð mikið upp á eins og leikmenn sögðu sjálfir eftir leikinn. Það vantaði að vinna þessar 50/50 baráttur sem við erum vanir að vinna,“ sagði Ari Freyr Skúlason landsliðsmaður við mbl.is fyrir æfingu á Laugardalsvelli. 

Ari var einn þeirra leikmanna sem fengu frí þegar Ísland tapaði 3:2 fyrir norska landsliðinu í Osló. Hann segir að það hafi verið aðalatriði í þeim leik að koma þeim leikmönnum í gang sem lítið höfðu spilað nýverið.

„Það var gott fyrir þá sem hafa ekki spilað síðan í byrjun maí að fá leikæfingu. Ég held að það hafi verið mikilvægast,“ sagði Ari. Hann sagðist efast um það að óákveðnin sem leikmennirnir sýndu í leiknum hafi verið vegna ótta við meiðsli.

„Ég veit ekki hvort maður sé endilega að pæla í því, það var kannski sérstaklega þannig í félagsliðunum, maður fór aðeins varlegar í lokin. En það er gaman að vera þeirri stöðu að segja að það sé óásættanlegt að tapa fyrir Noregi 3:2 á útivelli. Áður fyrr var það geggjað að ná jafntefli, en það sýnir bara hvernig hugarfarið er.“

Ísland mætir Liechtenstein á Laugardalsvelli á mánudaginn, en það er síðasti heimaleikur Lars Lagerbäcks sem landsliðsþjálfara því Heimir Hallgrímsson tekur alfarið við þjálfarastarfinu eftir EM.

„Þetta er síðasti leikurinn hans Lars hérna á heimavelli þannig að ég vona að það verði frábær stemning og að við getum klárað þetta með sigri og farið með sjálfstrausti á EM,“ sagði Ari. 

Spurður hvort frammistaðan í Liechtenstein yrði öðruvísi sagði Ari:

„Við þurfum bara að stilla okkur saman og taka þessar æfingar eins og við erum vanir að gera með Lars. Það er langt síðan við vorum saman síðast, það þarf að stilla þessar línur.“

Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik sínum á EM í St. Etienne 14. júní. Ari Freyr segist ekki enn vera kominn með fiðring, en það styttist í það.

„Þegar við komum til Frakklands þá sjáum við hversu stórt þetta er. Við settum okkur markmið og við náðum því, við trúum á okkur. Eins og flestir sáu þá er eitthvað í þessum hóp sem er ekki í öðrum landsliðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert