Þór/KA tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu eftir 6:0 sigur á Grindavík á Þórsvelli í dag. Heimamenn voru með yfirhöndina allan leikinn og var staðan 5:0 í hálfleik.
Flóðgáttirnar opnuðust strax á 4. mínútu leiks með marki Huldu Óskar Jónsdóttur og komu mörkin jafnt og þétt í fyrri hálfleik. Sandra María Jessen bætti öðru markinu við úr vítaspyrnu á 14. mínútu og Andrea Mist Pálsdóttir kom Þór/KA í 3:0 á 25. mínútu. Akureyringar virtust hafa róað sig örlítið niður því næsta mark kom heilum 12 mínútum síðar og var það Stepheny Mayor sem skoraði. Hún bætti sínu 2. marki við á 45. mínútu með stórglæsilegri hjólhestaspyrnu og var staðan 5:0 í hálfleik.
Þór/KA virtist ætla að láta sér 5:0 sigur nægja á 1. deildarliði Grindavíkur sem hafði ekki enn tapað leik á tímabilinu, en svo var ekki. Sandra María Jessen skoraði annað mark sitt í leiknum og sjötta mark Þórs/KA á 61. mínútu. Þó urðu mörkin ekki fleiri og lauk leiknum 6:0.
Leik lokið
61. MARK!!! Þór/KA 6:0 Grindavík - Sandra María Jessen skorar sitt annað mark í leiknum.
46. Seinni hálfleikur hafinn.
Hálfleikur
45. MARK!!! Þór/KA 5:0 Grindavík - Stepheny Mayor er komin með tvö mörk.
37. MARK!!! Þór/KA 4:0 Grindavík - Stepheny Mayor Fyrsta tap 1. deildarliðs Grindavíkur á tímabilinu virðist ætla að koma í dag.
25. MARK!!! Þór/KA 3:0 Grindavík - Andrea Mist Pálsdóttir Þetta er algjör markaveisla hjá Akureyringum. Þrjú mörk á 25 mínútum!
14.MARK!!! Þór/KA 2:0 Grindavík - Sandra María Jessen er enn og aftur á skotskónum og hún kemur heimaliðinu í tveggja marka forystu.
14. Vítaspyrna! Þór/KA fær vítaspyrnu.
4. MARK!!! Þór/KA 1:0 Grindavík - Hulda Ósk Jónsdóttir kemur heimamönnum í forystu strax í byrjun leiks.
1. Flautað er til leiks.