„Þetta er alvöru lið“

Arnar Grétarsson er nokkuð ánægður með Evrópudráttinn.
Arnar Grétarsson er nokkuð ánægður með Evrópudráttinn. Eva Björk Ægisdóttir

„Við hefðum örugglega getað fengið erfiðara lið úr þessum hóp af liðum sem komu til greina. Þetta er verðugt verkefni sem bíður okkar,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, eftir að dregið var í forkeppni Evrópudeildarinnar. Breiðablik mætir FK Jelgava frá Lettlandi.

Breiðablik var nokkuð heppið með andstæðing í forkeppninni en Jelgava hafnaði í fjórða sæti lettnesku deildarinnar á síðasta tímabili og situr í nú í sama sæti núna. Valur fékk á meðan danska stórliðið Brøndby og þá fékk KR lið Glenavon frá Norður-Írlandi.

„Það voru það mörg lið sem komu til greina að maður gat ekki kynnt sér hvert og eitt einasta lið en þeir eiga leik á miðvikudag á sama tíma og Ísland spilar. Þá getum við skoðað andstæðinginn og skoðað styrkleika þeirra og veikleika. Næstu dagar fara í að afla upplýsinga um liðið.“

„Ég held að við eigum að geta farið áfram en við þurfum að eiga tvo toppleiki til þess að fara áfram. Þetta verður krefjandi og ekki létt en ef við skoðum síðustu leiki í Evrópukeppninni þá er þetta alvöru lið.“

Það verður þétt dagskrá hjá Blikum næstu viku. Breiðablik mætir Val 24. júní áður en liðið mætir Jelgava heima í bikarnum sex dögum síðar. Liðið mætir svo ÍBV í Borgunarbikarnum 3. júlí áður en Blikar fara til Lettlands og spila aftur gegn Jelgava þann 7. júlí.

„Það er fínt að við byrjum heima því við erum með bikarleik og deildarleik, svo það verður þétt spilað hjá okkur. Ef við komumst áfram í Evrópukeppninni þá verður júlí svolítið undirlagður í svokölluðum enskum vikum þar sem það er spilað á 3–4 daga fresti.“

„Ég held að þetta sé bara spennandi. Þetta eru allt erfiðir leikir í þessari Evrópukeppni. Það hjálpar aðeins að vera seeded í drættinum. Valur fær Brøndby sem er gríðarlega erfiður andstæðingur og á öðru kalíberi. Við erum með raunhæfa möguleika en við þurfum að spila gríðarlega vel til að fara áfram,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert