Reykjavíkurvíkingar sigruðu nafna sína frá Ólafsvík, 2:0, í 8. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld í Víkinni. Reykvíkingar eru með 11 stig í 7. sæti en Ólsarar eru með 14 stig í 5. sæti.
Heimamenn hófu leikinn af miklum krafti og eftir tólf mínútna leik hafði sóknarmaðurinn Gary Martin skorað tvö mörk.
Fyrra markið úr vítaspyrnu á 10. mínútu eftir brot á Arnþóri Inga Kristinssyni og hið síðara tveimur mínútum síðar með skoti úr vítateignum eftir ágæta sókn heimamanna.
Leikurinn róaðist talsvert eftir fjöruga byrjun og fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik. Víkingur R. tveimur mörkum yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Gestirnir reyndu sitt besta til að minnka muninn og skora en komust lítt áleiðis. Skyndisóknir heimamanna sköpuðu hættu en hvorugu liðinu tókst að skora í seinni hálfleik og heimamenn lönduðu mikilvægum sigri.