Breiðablik á erfitt verkefni fyrir höndum í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar eftir slæmt tap á heimavelli gegn lettneska liðinu Jelgava, 2:3. Blikar voru sjálfum sér verstir í þessum leik en varnarleikur liðsins var í einu orði skelfilegur.
Lítið var vitað um lið gestanna áður en arfaslakur danskur dómari flautaði til leiks á Kópavogsvelli í kvöld. Lettarnir eru stórir og sterkir og Blikar réðu ekkert við þá í föstum leikatriðum. Fyrsta markið kom einmitt eftir hornspyrnu, þar sem dekkning varnarmanna Breiðabliks var í besta falli barnaleg.
Mark Daniels Bamberg þremur mínútum síðar kveikti smá neista í heimamönnum en aftur skoruðu gestirnir eftir hornspyrnu og aftur voru varnarmenn Blika gjörsamlega steinsofandi í teignum.
Jonathan Glenn hefur verið slakur í sumar og hann átti sök á þriðja markinu skömmu fyrir leikhlé. Glenn tapaði boltanum og hinn eldfljóti Mindaugas geystist upp allan völlinn og kláraði undir Gunnleif Gunnleifsson.
Staðan að loknum 45 mínútum var því 1:3 fyrir Jelgava en frammistaða Breiðabliks í fyrri hálfleik var skelfileg í alla staði.
Seinni hálfleikur var frekar leiðinlegur áhorfs. Lettarnir bökkuðu í vörn og treystu á skyndisóknir en Blikar reyndu að rétta sinn hlut. Það tókst með marki Olivers í blálokin en þetta mark gefur Blikum örlitla von fyrir seinni leikinn í Lettlandi.
Liðin mætast aftur í Lettlandi næsta fimmtudag. Liðið sem hefur betur samanlagt kemst í 2. umferð og mætir annað hvort Partizani frá Albaníu eða Slovan Bratislava frá Slóvakíu.