Jóhann Berg orðaður við Norwich

Jóhann Berg Guðmundsson í baráttu við Raheem Sterling í leik …
Jóhann Berg Guðmundsson í baráttu við Raheem Sterling í leik Íslands og Englands á EM. AFP

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson er orðaður við Norwich í enskum fjölmiðlum í dag.

Jóhann Berg er samningsbundinn Charlton sem féll í C-deildina á síðustu leiktíð en Jóhann hefur ekki farið leynt með það að hann vill reyna fyrir sér á öðrum vígstöðvum. Norwich er eitt þeirra liða sem horfa til landsliðsmannsins en Norwich féll úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

„Það er ekkert leyndarmál að hann vill spila á hæsta stigi og frammistaða hans á Evrópumótinu mun ekki gera honum mein. Það er heiðarlegt að segja það að við höfum fengið fyrirspurnir,“ segir Russell Slade, knattspyrnustjóri Charlton, í enskum fjölmiðlum í dag.

„Í sumum leikjunum var Ísland ekki mikið með boltann en það sem Jóhann gerði vel var án boltans. Vinnuframlag hans var gríðarlegt,“ segir Slade.

Jóhann Berg, sem átti flestar stoðsendingar í ensku B-deildinni ásamt öðrum leikmanni, er verðlagður á 3 milljónir punda sem jafngildir 490 milljónum króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert