Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, var frekar daufur eftir tap liðsins gegn ÍA í tíundu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. ÍA vann 1:0 og hefur þar með unnið þrjá leiki í röð.
Arnar var með skýra sýn á vandamál Blika í leiknum í kvöld.
„Það vantaði bara að koma boltanum í netið, það var númer 1, 2, 3 og 4 hjá okkur og auðvitað að koma í veg fyrir þetta mark sem þeir skoruðu. Það var af ódýrari gerðinni en við vissum að þeir væru sterkir í föstum leikatriðum.“
„Við vorum með boltann nánast allan tímann í leiknum og sköpum einhver færi en það er bara ekki nóg. Mér fannst við bara ekki nógu klókir á síðasta þriðjungi vallarins. Við komumst í kjörstöðu og þá tökum við ranga ákvörðun. Við erum bara sjálfum okkur verstir í þessu.“
Blikar hafa á skömmum tíma fallið úr bikarkeppni, Evrópukeppni og fengið eitt stig úr tveimur síðustu leikjum í deildinni, þar sem liðið skoraði ekki mark. Er slæmt gengi byrjað að fara í sálarlífið?
„Ég hef séð skemmtilegri tíma, ég get alveg sagt það. Ég er líka viss um að leikmennirnir hafa séð skemmtilegri tíma. Það leiðinlegasta sem þú gerir í knattspyrnu er að tapa knattspyrnuleikjum, tala nú ekki um þegar menn eru bara klaufar. Það er allt annað að tapa ef þú ert einfaldlega verri aðilinn. Í undanförnum leikjum höfum við bara verið okkur sjálfum verstir.“
„Hér erum við að spila í dag, þar sem við dóminerum leikinn nánast allan tímann og gefum nánast engin færi á okkur. Svona er fótboltinn og þetta er blóðugt.“
Árni Vilhjálmsson kemur inn í leikmannahóp Breiðabliks 15. júlí en framherjinn hefur verið lánaður aftur til Blika frá norska liðinu Lillestrøm.
„Það hefði ekki verið slæmt að hafa hann inni á vellinum. Hann hefði kannski nýtt eitthvað [færi] þarna. Það vantar aðeins drápseðli í liðið eins og er og það er að kosta okkur ansi mikið,“ sagði Arnar Grétarsson.