Árni Vilhjálmsson lagði upp öll þrjú mörk Breiðabliks í kvöld þegar liðið vann Fjölni 3:0 í Grafarvoginum í Pepsi-deild karla en þetta var hans fyrsti leikur frá því hann sneri aftur til félagsins frá Noregi.
Árni er kominn til Kópavogsliðsins sem lánsmaður frá Lillestrøm en þar hefur hann fengið fá tækifæri á yfirstandandi keppnistímabili.
„Það var hrikalega gaman að spila fótbolta í kvöld og enn þá skemmtilegra að fá þrjú stig," sagði Árni þegar mbl.is spjallaði við hann eftir leikinn.
„Þetta er eins og gengur og gerist í fótboltanum, ég hafði lítið fengið að spreyta mig og þurfti að finna mér stað til að spila. Þetta eru fjórir mánuðir, það var gott að fá að koma heim í mitt uppeldisfélag þar sem mér líður vel og fá að spila aftur. Eins og kannski sást á vellinum þá fannst mér þetta ótrúlega gaman. Mér sýnist á öllu að þetta hafi verið rétta skrefið hjá mér. Ég var líka með það í huga að komast í gang fyrir leikina með 21-árs landsliðinu í haust, fá 90 mínútur og það gekk í kvöld," sagði Árni.
Þú varst ekki lengi að ná góðri tengingu við liðsfélagana.
„Nei, það gekk vel. Ég er búinn að spila með mörgum af þessum strákum og svo voru þarna tveir af mínum æskufélögum, Gísli og Höskuldur, sem ég er búinn að æfa spila með síðan ég var sex ára. Þetta var bara skemmtilegt.“
Hvernig er staðan hjá þér hjá Lillestrøm?
„Ég á eitt ár eftir af samningnum þar. Ég er í toppformi í dag, ætla að nýta þetta tækifæri til að gera mig kláran fyrir verkefnin í haust og framhaldið, og svo sjáum við bara til hvað gerist," sagði Árni Vilhjálmsson.